Listasafn.reykjanesbæjar

Galdrameistari og skapandi listamaður á Ljósanótt -sýningaropnun 5.september kl.18

Ljósanótt í Reykjanesbæ fer fram í 20. sinn dagana 4.-8. september. Af því tilefni verða nýjar sýningar opnaðar í sölum Listasafns Reykjanesbæjar fimmtudaginn 5. september kl. 18.00. Ein þeirra er sýning Reynis Katrínar, Galdrameistara og skapandi listamanns í Stofu Duushúsa.

Andleg málefni hafa alla tíð átt huga og hjarta Reynis og bera verk hans þess sterk merki. Reynir sem hefur stundað hugleiðslu um árabil segir frá því að í gegnum hugleiðsluna hafi hann m.a. kynnst ljósverum og litríkum heimi þeirra. Hann hefur þessi kynni að leiðarljósi, auk þess sem hann nýtir sér visku kínverskrar konu að handan, sem gjarnan birtist honum þegar hann tekst á við vefsaum. Það má því segja að kvenlæg orka ráði ríkjum á sýningu Reynis, í gegnum samvinnu við ljósverurnar, en líka af því að verkin fjalla á einn eða annan hátt um gyðjur úr norrænni goðafræði.                  

Reynir velur að vinna einungis með náttúruleg efni, þ.e. steina, rekavið, ull og egg temperu og notast við liti sem hann finnur í íslenskri náttúru.
Á sýningunni sem stendur til 2. nóvember, stillir hann upp málverkum, textílverkum og ískornum steinum.                                                                          

Reynir Katrínar verður með leiðsögn / spjall um sýninguna sunnudaginn 8. september kl.15:00, auk þess sem hann býður gestum upp á sérstaka spátíma annan hvern sunnudag á meðan á sýningunni stendur. Spátímar verða auglýstir nánar síðar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com