Edda

Fyrirlestur um Kjarval og Jón Þorsteinsson

Listfræðingurinn Edda Halldórsdóttir segir frá sambandi Jóhannesar S. Kjarvals við Jón Þorsteinsson íþróttakennara. Edda er langafabarn Jóns og hefur því einstakt sjónarhorn á viðfangsefnið.

Jón var mikill velgjörðarmaður Kjarvals og eignaðist stórt safn verka eftir vin sinn. Jón lét Kjarval í té vinnuaðstöðu í íþróttahúsi sínu við Lindargötu 7 í Reykjavík, þar var haldin stór sýning á verkum hans árið 1942 og um tveggja ára skeið bjó Kjarval hjá Jóni og Eyrúnu konu hans. Edda segir frá einstökum verkum í safni langafa síns og hvernig hann byggði upp safn sitt.

Fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við sýningu á verkum Kjarvals í Austursal Kjarvalsstaða, þar sem meðal annars má sjá verk úr safni Jóns Þorsteinssonar.

Edda Halldórsdóttir útskrifaðist með MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún er nú verkefnastjóri hjá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Edda hefur kennt listfræði við Háskóla Íslands, unnið við íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum og sem framkvæmdastjóri Sequences VII.

Fyrirlesturinn er haldinn á íslensku. Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

 

Viðburðurinn á Facebook

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com