14480662 1092818584148177 284901921737567851 O

Fyrirlestur Dorothée Kirch á vegum Listfræðafélags Íslands

Uppbrot, fyrirlestur Dorothée Kirch, verður fluttur í Safnahúsinu við Hverfisgötu miðvikudaginn 5. október frá 12 til 13.  Í fyrirlestrinum ræðir Dorothée tilurð og forsendur sýningar sinnar  í Ásmundarsafni þar sem verk Elínar Hansdóttir eru sett í samhengi verka Ásmundar Sveinssonar. Fyrirlesturinn er annar fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Listfræðafélagins í samvinnu við Safnahúsið nú í haust. Röðin ber yfirheitið STEFNUMÓT og í henni er áhersla lögð á sýningar sem félagar Listfræðafélagins hafa staðið fyrir á undanförnum árum og eiga það sameiginlegt að stefna saman listamönnum af ólíkum kynslóðum.

Hlutskipti listamanna hefur oft verið að brjóta upp gömul og gildandi viðhorf. Ásmundur Sveinsson (1893–1982) talaði um að fá fólk til að „vakna til meðvitundar um að það er ekki skynlausar skepnur.“ Elín Hansdóttir (f. 1980) segir listina eiga að „kippa undan þér fótunum og fá þig til að endurmeta fastmótaðar hugmyndir þínar.“

Elín og Ásmundur vinna með þrívíddina á ólíkan hátt, hann fangar form í efni, hún endurskilgreinir rýmið. Átökin milli verka þeirra opna áhorfendum nýja sýn. Á milli kynslóðanna eru margir ósættanlegir þræðir sem skapa áhugaverða spennu en þar er einnig að finna kraftmikinn samhljóm.

Dorothée Kirch hefur m.a. starfað hjá Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listahátíð í Reykjavík og Listasafni Íslands. Hún var framkvæmdastjóri íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum árin 2011 og 2013 og var sýningarstjóri hans árið 2009. Hún var framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar árin 2010 og 2014. Dorothée lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005.

Nánari upplýsingar: Hlynur Helgason, form. Listfr.félags Íslands, gsm 661-8723, hlynur@fugl.is og Dorothée Kirch, gsm 690-4960, doro@this.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com