1a7ad8ee 5ad1 4ed2 861c 4e6525f13906

Fyrirlestur Benedikts Hjartarsonar: DADA aldarafmæli

Sunnudag 13. nóvember kl. 13 í Hafnarhúsi

Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur fjallar um tengsl framúrstefnu og fyrri heimsstyrjaldar.

Í ár eru hundrað ár síðan dada hreyfingin kom fram á sjónarsviðið. Að því tilefni heldur Benedikt erindi um dadaismann og aðra framúrstefnu þess tíma og tengsl við fyrri heimsstyrjöldina. Erindið er hluti af samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Íslenska dansflokksins sem sýnir í nóvember verkið Da Da Dans.

Dada var heiti hreyfingar í listum og bókmenntum sem fól í sér mótvægi gegn viðteknum viðhorfum. Hún kom fram í Sviss árið 1916 og breiddist út víða. Fylgismenn vildu taka listina niður af stalli og láta hana endurspegla samtímann og daglegt líf, með áherslu á tilviljanir og uppákomur. Háð og skrumskæling einkenndu hreyfinguna sem var í eðli sínu uppreisn gegn þjóðfélagsháttum sem leiddu til fyrri heimsstyrjaldar. Í Listasafni Reykjavíkur standa um þessar mundir yfir sýningar og dagskrá sem fjalla um stríð og frið og er fyrirlesturinn hluti af þeirri dagskrá.

Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá hugvísindasviði háskólans í Groningen árið 2012 með doktorsritgerð um yfirlýsingar evrópskra framúrstefnuhreyfinga í upphafi 20. aldar. Benedikt hefur gefið út fjölda greina og bóka um evrópska framúrstefnu á síðastliðnum árum, m.a. ritið Yfirlýsingar. Evrópska framúrstefnan (2001), sem hefur að geyma safn yfirlýsinga frá tíma evrópsku framúrstefnunnar.

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir dansverkið Da Da Dans í Borgarleikhúsinu, kvöldið fyrir fyrirlesturinn, laugardaginn 12. nóvember. Verkið er eftir Grímuverðlaunahafana Ingu Huld Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur við frumsamda tónlist Sveinbjörns Thorarensens. Í Da Da Dans skoða danshöfundarnir mismunandi leiðir dadaismans og velta fyrir sér hvort þær eigi enn við í dag. Sjá upplýsingar og miðapantanir hér.

Aðgangur á fyrirlestur Benedikts er ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com