Frystikista í fjörunni – Sýningarlok/spjall

gunnhildur

 

Sýningarlok/spjall í Borgarbókasafni menningarhús Spönginni

laugardaginn 11. apríl kl. 14

Á laugardaginn er síðasti sýningardagur sýningarinnar Frystikista í fjörunni með verkum eftir Gunnhildi Þórðardóttur í útibúi Borgarbókasafnsins í Spönginni Grafarvogi. Af því tilefnið býður listakonan gestum til listamannaspjalls laugardaginn 11. apríl kl. 14. Gunnhildur mun segja frá verkum sínum en jafnframt lesa eigin ljóð úr ljóðabókum sínum.

 

Titill sýningarinnar Frystikista í fjörunni  vísar í samnefnt ljóð Gunnhildar þar sem fram kemur gagnrýni á neyslusamfélagið. Efniviðurinn og innblásturinn er sóttur í umhverfi listamannsins: hafið, klettana og fjöruna á Reykjanesi. Verkin eru tví- og þrívíð, unnin á árunum 2013-2014 en sterkir litir og form eru ríkjandi, bæði í málverkum og skúlptúrum. Sjálfbærni er eitt af lykilorðunum í listsköpun Gunnhildur en hún notar ýmislegt sem verður á vegi hennar, til dæmis muni sem hefur verið hent og skolað á land upp í fjöru, eða efni sem til fellur, til dæmis timbur, bárujárn og textíl. Þannig fá hlutir framhaldslíf eða nýtt hlutverk þegar þeir eru settir í annað samhengi.

Sum verkanna voru áður til sýnis á sýningunni Áframhald í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2013.

 

Gunnhildur Þórðardóttir (f. 1979) lærði listasögu, fagurlistir og liststjórnun. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og gjörningum hér á landi og erlendis. Gunnhildur lauk BA (Honours) í listasögu og fagurlistum frá Anglia Ruskin University í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama skóla árið 2006. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars Regnbogapönk í Slunkaríki á Ísafirði (2014), Áframhald í Listasafni Reykjanesbæjar (2013), Minningar í kössum í Flóru á Akureyri (2013) auk þess sem Gunnhildur hefur tekið þátt í samsýningum í Listasafni Íslands og í Hafnarborg. Þá hefur hún einnig tekið þátt í myndbandsgjörningi í Tate Britain-safninu í London sem stjórnað var af Tracey Moberly myndlistarmanni.

Borgarbókasafn menningarhús Spönginni er opið virka daga kl. 10-19, nema föstudaga er opið frá 11-19. Á laugardögum er opið frá kl. 12-16.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com