Freyja Eilíf

Freyja Eilíf opnar sýningu í Kaupmannahöfn

Freyja Eilíf opnar sýninguna Hugbúnaðarhold í Tada gallerí á Flanøgade 36 í Kaupmannahöfn laugardaginn 27. apríl kl.17:00 – 18:30.

Á sýningunni verða myndverk sem Freyja Eilíf vann með blandaðri tækni út frá efnisheimi gjörningaverks sem átti sér stað í San Pedro, Kaliforníu fyrr á þessu ári og eignast staðbundnir holdgervingar þess hugbúnaðarheims langlífari tilveru gegnum stafræna myndvinnslu sem var framkvæmd á lánuðu móðurborði. Verkin spegla hold í mismunandi þáttum mannlífs og eru unnin sem nótnaskrift undir hlutverk sem fylgja hinu mannlega ástandi. Fyrir sýningarverkefninu hlaut Freyja Eilíf styrk úr ferðasjóði Muggs.

Freyja Eilíf (f. 1986) býr og starfar sem myndlistarmaður í Reykjavík þar sem hún hefur haldið utan um starfsemi Ekkisens sýningarýmis í Þingholtunum frá 2014, árinu sem hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur verið virk í sýningarhaldi á Íslandi og einnig sýnt verk sín í Noregi, Finnlandi, Bretlandi, Þýskalandi, Eistlandi og Bandaríkjunum. Hugbúnaðarhold er fimmtánda einkasýning hennar eftir útskrift en í fyrsta skipti sem hún sýnir í Danmörku. 

Freyja Eilíf vinnur myndlist til að framkalla myndir frá leiðslum inn af ólíkum vitundarsviðum og notar eigin  hugbúnað sem verkfæri til að skoða ýmis óvissufræði.  Hún vinnur verk í blandaða miðla og skapar uppsetningar staðbundið inn í hvert rými til að skapa samhljóm við þá skynjun sem hún fæst við hverju sinni.  Sýningin Hugbúnaðarhold í Tada sýningarými stendur uppi til 22. maí

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com