top of page

Tvær nýjar sýningar í Gerðarsafni

508A4884.JPG

fimmtudagur, 24. október 2024

Tvær nýjar sýningar í Gerðarsafni

Fimmtudaginn 30. október kl 18:00 viku opna tvær nýjar einkasýningar í Gerðarsafni.

Finnbogi Pétursson - Parabóla

Á sýningunni PARABÓLA gerir Finnbogi Pétursson takt Jarðar sýnilegan. Listamaðurinn notar hljóð en það ómar ekki heldur skapar hreyfingu. Hljóðið gárar vatnið eins og ósýnilegur dropi sem fellur og kemur af stað bylgjum sem ferðast eftir vatnsfletinum. Með hætti sem einskorðast við þessa plánetu.

Gárurnar eru í takti. Sínusbylgjur púlsa yfir afmarkaðan flöt vatnsins sem er rammað inn í ílangar laugar. Ljósið varpar hreyfingu vatnsins upp svo við sjáum hana í efni sem við leiðum hugann sjaldan að, loftinu sem umlykur okkur. Tíðni bylgjanna er sjónræn, við sjáum þær mætast, ekki brotna heldur mynda ný munstur eða jafnvel lygnu.

Listamaðurinn notar vatn, loft, ljós og hljóð sem efni til að forma. Notar þekkingu mannsins á eðlisfræðilögmálum Jarðarinnar til að stýra efnum sem erfitt er að eiga við. Við þekkjum þennan takt, hann býr innra með okkur. Þegar við orkum á heiminn gerum við það iðulega í takt við þessar sveiflur hans. Hvort sem við ýtum barni í rólu, stillum flugvélahreyfla, hrærum í baðvatni eða sveiflum hverju sem er.


Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Þorgerður Ólafsdóttir | Óstöðugt land

Óstöðugt land er sýningarverkefni og listrannsókn Gunndísar Ýrar Finnbogadóttur og Þorgerðar Ólafsdóttur sem byggir á viðtölum við einstaklinga sem hafa ferðast til Surtseyjar. Sýning þeirra, sem ber sama titil, opnar í Vestursal Gerðarsafns þann 26. október 2024.

Sýningin Óstöðugt land byggir á samstarfi Gunndísar og Þorgerðar en þær hafa tekið viðtöl við einstaklinga sem ferðuðust til Surtseyjar á árunum 1963 - 2022 með fjölbreytt markmið og ólíkan tilgang. Viðtalsverkið grundvallast á örfyrirbærafræðilegum viðtölum (e. micro - phenomenological interviews) en sú aðferð gengur út á það að fá viðmælendur til að lýsa reynslu sinni af umhverfi Surtseyjar og varpa fram lýsandi mynd af upplifun sinni og minningar af fyrri (líkamlegri) reynslu.

Viðtölin voru tekin upp í Surtseyjarstofu á Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ), þar sem heimildarsafn Surtseyjarfélagsins er varðveitt ásamt ótal verðmætum steinasýnum frá eyjunni sjálfri frá upphafi eldgoss. Viðtölin mynda uppistöðuna í nýrri vídeóinnsetningu sem ber titilinn Óstöðugt land og eru skrásett með ýmsu móti, sem myndbandsupptökur, afritun í textaformi, gegnum hljóð og teikningar. Upptaka viðtalanna var í umsjón Bjarna Þórs Péturssonar og klippivinna er í samstarfi við Hrafnkel Tuma Georgsson.

Sýningastjórn Becky Forsythe.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page