Samtal um skapandi greinar

föstudagur, 28. febrúar 2025
Samtal um skapandi greinar
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar fimmtudaginn 6. mars klukkan 8:30 - 10 í húsakynnum CCP Í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Að vaxa skapandi: vöxtur og samdráttur fyrirtækja í skapandi greinum. Viðburðinum verður streymt þar til opnað verður fyrir spurningar úr sal.
Á fundinum munu Margrét Sigrún Sigurðardóttir, prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, Hjálmar Gíslason frumkvöðull í hugbúnaðargeiranum, og Birna Hafstein formaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, ræða saman um rekstur fyrirtækja í skapandi greinum og stöðu þeirra sem þar starfa, en fyrirtækin einkennast gjarnan af óvissri eftirspurn og harmonikku-vexti, þar sem þau vaxa og minnka eftir aðstæðum. Hjálmar mun miðla reynslu sinni af vexti og samdrætti í rekstri og Birna Hafstein veita innsýn í stöðu starfsfólks þessara fyrirtækja sem þurfa að horfast í augu við verkefnaráðningar og óvissu á vinnumarkaði.
Margrét Sigrún Sigurðardóttir er prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún er annar höfunda á skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina sem markaði ákveðin tímamót í samtali um skapandi greinar á Ísland, en hefur jafnframt sinnt fræðilegum rannsóknum á skapandi greinum. Fundurinn mun byggja á greininni Growth Strategies in Creative Industries eftir Margreti og M. Candi (2019), sem birtist í Creativity and Innovation Management.
Birna Hafstein er formaður Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum. Hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu úr listum, menningu og skapandi greinum og farsæla stjórnunar-og rekstrarreynslu. Birna hefur sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í gegnum árin, ekki síst á sviði menningar. Hún hefur setið í Þjóðleikhúsráði, stjórn Hörpu, stjórn BÍL og kvikmyndaráði svo fátt eitt sé nefnt. Hún var forseti Sviðslistasambands Íslands um árabil og stjórnarformaður Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaunanna, og á sæti í Norræna leikararáðinu.
Hjálmar Gíslason er stofnandi og framkvæmdastjóri GRID – sem gerir notendum töflureikna kleift að búa til nútímaleg veföpp á einfaldan hátt. Jafnframt stofnaði hann fyrirtækið Maskínu um aldamótin, fyrirtæki sem þróaði hugbúnað fyrir farsíma, og Datamarket árið 2008 þar sem markmiðið var að gera gögn heimsins aðgengileg stjórnendum í viðskiptalífinu með lágmarksfyrirhöfn. Þessi listi er alls ekki tæmandi en Hjálmar byrjaði að forrita 8 ára gamall og hefur víðtæka reynslu af því að koma hugbúnaðarfyrirtækjum á koppinn.
Í kjölfar erinda lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal fundargesta.
Samtal um skapandi greinar er röð óformlegra funda sem RSG stendur að í samvinnu við CCP. Með fundaröðinni vill RSG skapa samræðuvettvang áhugafólks um skapandi greinar með því að tengja saman hagaðila í einkageiranum, akademíunni og frá stofnunum og stjórnsýslunni og efla þannig umræðuna um menningu og skapandi greinar.
Vinsamlegast skráið mætingu hér: https://forms.gle/UqJU7Fafpb33aSmMA
Athugið að sætaframboð er takmarkað.
Skráningu lýkur kl. 12 miðvikudaginn 5. mars.
CCP býður fundargestum upp á kaffi og léttan morgunverð.