top of page

Rannsóknarnám í listum og listfræði hlýtur styrk úr Samstarfi háskólanna

508A4884.JPG

fimmtudagur, 1. febrúar 2024

Rannsóknarnám í listum og listfræði hlýtur styrk úr Samstarfi háskólanna

Verkefni um rannsóknarnám í listum og listfræði í samstarfi Listaháskóla Íslands, Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Listasafns Íslands hlaut veglegan þróunarstyrk til tveggja ára við aðra úthlutun úr Samstarfi háskólanna á vegum Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Um er að ræða þróunarverkefni á sviði samtímamyndlistar með áherslu á lítt rannsakaða arfleifð verka í tímatengdum miðlum úr safneign Listasafnsins.

Verkefnið felur í sér nýja nálgun við doktorsnám í hugvísindum og þróunarverkefni um innleiðingu doktorsnáms í listum, byggt á aðferðum listrannsókna. Stofnað verður til tveggja rannsóknastaða sem fella megi undir skilgreiningar náms á þriðja þrepi háskóla (doktorsstig) og leggja grunn að slíku gráðunámi, annars vegar með stöðu listrannsakanda (e. artistic research) og hins vegar listfræðilegs rannsakanda. Rannsóknirnar munu beinast að viðfangsefnum innan stafrænnar/rafrænnar myndlistar í safneign Listasafns Íslands. Rannsóknastöðurnar fela í sér þróun nýrra aðferða sem tvinna saman fræði og listsköpun í beinu samstarfi við höfuðsafn íslenskrar myndlistar.

Listaháskólinn hefur markað sér þá stefnu að innleiða doktorsnám í listum á þverfaglegum grunni listanna á næstu árum. Verkefnið felur í sér tækifæri til að prufukeyra nýjar rannsóknaraðferðir, sambærilegar við þær doktorsstöður sem LHÍ hefur þegar aðkomu að í gegnum víðamikið listrannsóknarverkefni dr. Þórhalls Magnússonar, Intelligent Instruments, sem hýst er við skólann í samstarfi við Hugvísindasvið HÍ. Þannig er lagður enn frekari grunnur að jafningjasamfélagi á fræðasviðinu listir í beinu samtali við fag- og hagaðila á vettvangi íslenskrar menningar. Þá er verkefnið til þess fallið að virkja samfélagslegan slagkraft listanna og aðgengi almennings að rannsóknarferli og sköpun nýrrar þekkingar innan fræðasviðanna tveggja.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page