top of page

Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir

508A4884.JPG

fimmtudagur, 27. mars 2025

Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir

Listasafn Íslands kynnir sýninguna Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir.
Sýningaropnun laugardaginn 12. apríl kl 14:00.

Eftirlíkingar listaverka og ýmiss konar falsanir hafa þekkst frá fornu fari og enn koma upp fölsunarmál víða um lönd þar sem mikið kann að liggja undir. Í mörgum söfnum leynast vafasöm verk sem hafa ratað þar inn með margvíslegum hætti og á það einnig við um Listasafn Íslands. Á sýningunni Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir verða sagðar níu sögur af fölsuðum verkum sem hafa borist safninu með ýmsum hætti en öll tengjast þau hinu svonefnda stóra málverkafölsunarmáli sem hófst á síðasta tug 20. aldar. Undanfarin misseri hafa starfsmenn safnsins rannsakað þessi verk og hefur margt forvitnilegt komið í ljós.

Iðulega eru fölsuð verk og eftirlíkingar eignuð látnum listamönnum en enginn er þó óhultur fyrir glæpum af þessu tagi. Málverkafalsanir fela meðal annars í sér skjalafals og fjársvik. Auk þess er fölsun málverka brot á höfundalögum en óheimilt er að breyta verki höfundar, þannig að höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni séu skert.

Með þessari sýningu vill Listasafn Íslands stuðla að vitundarvakningu varðandi listaverkafalsanir hér á landi og kynna rannsóknaraðferðir sem varpa ljósi á uppruna verka. Á sýningunni eru verk í vörslu safnsins sem rannsóknir hafa staðfest að eru fölsuð, auk falsaðs verks í einkaeigu sem tengdist sýningu í safninu. Einnig eru sýnd ófölsuð verk úr safneign og lánsverk sem tengjast sögum sem hér eru sagðar.

Sýningarstjórar: Dagný Heiðdal og Ólafur Ingi Jónsson.

Listasafn Íslands er að fara af stað með námskeið fyrir fullorðna. Fyrsta námskeiðið ber heitið Afhjúpun blekkingar — Um eftirlíkingar og falsanir og er unnið út frá fyrirhugaðri sýningu um eftirlíkingar og falsanir.

Námskeiðið byggir á sögulegum staðreyndum sem og raundæmum úr safneign Listasafns Íslands þar sem sérfræðingar safnsins miðla þekkingu sinni til þátttakenda þannig að skilningur þeirra dýpki til muna á viðfangsefni námskeiðsins.

Nánar um námskeiðið hér: https://www.listasafn.is/laera/afhjupun-blekkingar/

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page