top of page

Opnun í Grafíksalnum á fimmtudag, Hjörleifur Halldórsson - Af jörðu

508A4884.JPG

fimmtudagur, 27. mars 2025

Opnun í Grafíksalnum á fimmtudag, Hjörleifur Halldórsson - Af jörðu

Hjörleifur Halldórsson opnar sýninguna Af jörðu í Grafíksalnum næstkomandi fimmtudag, 27. mars kl 17-19. Opið verður alla daga kl 11-18 en lokadagur sýningarinnar er 13. apríl. Öll hjartanlega velkomin.

Listamannaspjall: Sunnudagur 30. mars kl. 16:00 og sunnudagur 13. apríl kl. 16:00

Sýningin Af Jörðu er hugleiðing um hverfulleika, minningar og hið óhjákvæmilega ferðalag aftur til náttúrunnar. Sýningin samanstendur af sextán málverkum, andlitsmyndum sem og landslagsverkum. Umbreytingar tilverunnar birtast í blöndu af náttúrulitum við eldfjallaösku; tákn um eyðingu og endurnýtingu. Vikur frá sprengigosi úr Heklu og nýmyndað hrauni við Grindavík myndar jarðbundna tengingu við hringrás náttúrunnar, frá fæðingu til dauðadags.

Andlitsmyndirnar ná yfir fjórar kynslóðir og endurspegla brothætt eðli mannsins. Með tímanum dofna andlit, nöfn glatast og kynslóðir hverfa í gleymskunnar dá. Fimmta kynslóðin mun aldrei þekkja þá fyrstu. Þessar myndir bera því ekki nöfn, heldur eingöngu vegabréfsnúmer, endurómun af skammri viðveru.

Landslagsverkin, jörðin mótuð af sömu hráu öflunum og mannslíkaminn, endurspegla síendurtekna hringrás sköpunar og hrörnunar. Landið, rétt eins og við, er í stöðugri umbreytingu; það rís, veðrast og endurfæðist. Því af jörðu skal mankynið aftur verða.

Í þessum hverfulleika býr fegurð. Að sætta sig við hverfulleikann er að viðurkenna hina stuttu dvöl okkar á jörðinni, hvorki mótmæla né syrgja hana, heldur faðma hringrás lífsins.
Því, af jörðu ertu komin, af jörðu skaltu aftur verða, og af jörðu skaltu aftur upp rísa.

Hjörleifur Halldórsson fæddist árið 1972 í Reykjavík og útskrifaðist vorið 2024 úr Myndlistarháskólanum í Poznań (University of Fine Arts Poznań, UAP). Hann lærði verkfræði í Stokkhólmi og áður en hann snéri sér að listinni starfaði hann í áratugi hjá ýmsum fyrirtækjum sem verkfræðingur, sérhæfður í heilbrigðistækni. Verk Hjörleifs fjalla í flestum tilvikum um hverfulleika og umbreytingar, og vinnur hann gjarnan með akrýlmálningu, stafrænar myndir og teikningar. Af Jörðu er fyrsta sýning hans á Íslandi, en hann hefur þó nú þegar haldið ellefu sýningar víðsvegar um Pólland.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page