Opið fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu í París til 13. janúar
fimmtudagur, 19. desember 2024
Opið fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu í París til 13. janúar
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um dvöl í Kjarvalsstofu í París á Mínum síðum Reykjavíkurborgar. Kjarvalsstofa er stúdíóíbúð/vinnustofa sem listafólk á Íslandi getur sótt um að fá leigða í afmarkaðan tíma.
Stúdíóið er 40 fermetrar og er hluti af alþjóðlegu listamannamiðstöðinni Cité internationale des arts, sem hýsir yfir 300 listamenn víðs vegar að úr heiminum á hverju ári. Íbúðin er staðsett í miðborg Parísar, skammt frá Notre Dame dómkirkjunni. Kjarvalsstofa er í umsjá Reykjavíkurborgar og menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Í umsókn skal tilgreina markmið með dvölinni, hvaða verkefni umsækjandi hyggst vinna að og hvort verkefnið hafi sérstök tengsl við París eða Frakkland, í formi tengslamyndunar eða rannsókna. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 13. janúar. Hægt er að sækja um dvöl á tímabilinu maí 2024 til apríl 2025 og er úthlutun að lágmarki tveir mánuðir í senn.
Sótt er um dvöl í Kjarvalsstofu á Mínum síðum Reykjavíkurborgar. Hér má finna allar frekari upplýsingar um Kjarvalsstofu.
Frekari upplýsingar veitir starfsfólk skrifstofu menningarborgar á netfanginu menning@reykjavik.is.