ONÍ / INTO - Guðrún Arndís Tryggvadóttir
![508A4884.JPG](https://static.wixstatic.com/media/b4dc0c_4b2a3f47024b466f873b429b09c59050~mv2.png/v1/fill/w_547,h_410,al_c,q_85,usm_0.66_1.00_0.01,enc_avif,quality_auto/508A4884_JPG.png)
miðvikudagur, 31. maí 2023
ONÍ / INTO - Guðrún Arndís Tryggvadóttir
Þann 3. júní kl. 15-17 opnar Guðrún Arndís Tryggvadóttir sýninguna ONÍ í vestursal Sesseljuhúss umhverfisseturs á Sólheimum í Grímsnesi. Sýningunni fylgir sýningarskrá.
„Verkin á sýningunni eru unnin með það í huga að kafa ofan í efnisheiminn og spyrja spurninga um tímann, lífið og siðmenninguna. Markmiðið var að myndirnar myndu mála sig að mestu leiti sjálfar, með smá hjálp frá mér og náttúrulegum- efnum og öflum.“
Um listamanninn:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún fékk inngöngu í Myndlista- og handíða Íslands sextán ára gömul, fór í framhaldsnám til Parísar og síðan til München þar sem hún hlaut æðstu verðlaun akademíunnar við útskrift. Tveggja ára dvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið, starfslaun listamanna og einkasýning á Kjarvalsstöðum 1987 en síðan fór hún til Berlínar í eitt ár og til Bandaríkjanna í fimm ár þar sem hún tók þátt í fjölda sýninga. Hún átti síðan eins árs viðdvöl á Íslandi veturinn 1992-1993 og stofnaði þá myndmenntaskólann Rými. Síðan lá leiðin aftur til Þýskalands þar sem hún stofnaði hönnunarstofuna Kunst & Werbung, málaði og var m.a. fengin til að hanna minnisvarða fyrir borgina Großalmerode. Guðrún sneri aftur til Íslands um aldamótin 2000. Eftir heimkomuna urðu nátturuvernd og umhverfismál henni æ mikilvægari. Árið 2004 hóf hún undirbúning að stofnun umhverfisvefsins Náttúran.is sem hún rak til ársins 2016. Frá árinu 2017 hefur hún starfað sem landvörður meðfram listsköpun sinni og rekið fræðslu- og útgáfufélagið Listrými sem gaf m.a. út bókina Lífsverk - Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar árið 2019 en Ámundi var einn virtasti lista- og handverksmaður 18. aldar á Suðurlandi. Guðrún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði á sviði umhverfismála og menningarmiðlunar sem og fyrir myndlist sína.Verk hennar byggja á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni en hún gerir sífellt tilraunir með nýja tækni og frásagnaraðferðir í list sinni.