Norr11: Seigla - Gjörningaklúbburinn
föstudagur, 14. janúar 2022
Norr11: Seigla - Gjörningaklúbburinn
Gjörningaklúbburinn opnar í Norr11
Laugardaginn 15. janúar næstkomandi opnar The Icelandic Love Corporation / Gjörningaklúbburinn, sem skipaður er af myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur, sýninguna Seigla í NORR11, Hverfisgötu 18. Sýningin er á vegum Listvals og stendur til 1. mars. Opnunin stendur á milli 14-17. Vegna samkomutakmarkanna munu verkin einnig vera aðgengileg á vefnum okkar www.listval.is.
Á sýningunni Seiglu í NORR11 er um tvenns konar verk að ræða, annars vegar einstök nælonsokkabuxnaþrykk þar sem hinn margslungni vísinda- og félagsvefur nælonsins fær að njóta sín í öllum sínum fjölbreytileika og leikgleði og hins vegar veggverkið Seigla sem býr yfir aðdáunarverðri aðlögunarhæfni og styrk þar sem fínlegir nælonsokkar mynda eina heild sem inniheldur hnefastórt grjót í hverri tá. Nælonsokkabuxurnar, olíulitir Gjörningaklúbbsins, koma beint úr iðrum hins kvenlæga veruleika þar sem efniviðurinn, nælonið, býr yfir eiginleikum úthalds, þolgæðis og þrautseigju.
Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Vinnur Gjörningaklúbburinn í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni, svo sem gjörninga, ljósmyndir og innsetningar og nýtir sér gjarnan verkfræði ömmunar, handverk og útsjónarsemi í bland við glæsileika og nútímatækni.
Gjörningaklúbburinn (st. 1996) á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim þar á meðal MoMA í New York, Kunsthalle Vienna, Schirn Kunsthalle, Hamburger Bahnhof, Amos Anderson, ARoS og Lilith Performance Studio.