top of page

Málþing: Ólga - Kjarvalsstaðir

508A4884.JPG

fimmtudagur, 6. mars 2025

Málþing: Ólga - Kjarvalsstaðir

Málþing í tengslum við samsýninguna Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum verður haldið á Kjarvalsstöðum á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, laugardag 8. mars kl. 12.00 – 14.00.

Skipuleggjandi og fundarstjóri er dr. Æsa Sigurjónsdóttir en erindi flytja þær Becky Forsythe, Heiða Björg Árnadóttir, Gerla -Guðrún Erla Geirsdóttir, Harpa Björnsdóttir og Brynhildur Þorgeirsdóttir.
Sama dag fögnum við útgáfu veglegrar sýningarskrár sem inniheldur greinar eftir Becky Forsythe sýningarstjóra og Heiðu Björk Árnadóttur listfræðing auk viðtala við listakonur, myndir af listaverkum og heimildir sem bregða ljósi á tengslanetin og samböndin sem nærðu tímabilið. Með útgáfunni er ætlunin að varðveita og heiðra framlag þessara brautryðjenda og sýna fram á hvernig verk þeirra halda áfram að hljóma og veita innblástur.

Á sýningunni Ólga er leitast við að skoða flókið tengslanet, sterkan vef og djarft frumkvæði kvenna sem einkenndi þennan tíma listrænnar nýsköpunar. Á áttunda áratugnum lagði önnur bylgja femínisma grunninn að kvenfrelsisbaráttu um allan hinn vestræna heim sem leiddi af sér aukinn sýnileika kvenna og ýmsar breytingar innan stofnana. Með því að byggja á ávinningi áttunda áratugarins, sem oft hefur verið kallaður „kvennaáratugurinn,“ færði níundi áratugurinn konum frekari réttindi þar sem ólgandi sköpunarkraftur fékk notið sín.

Árið 2021 fékk Listasafn Reykjavíkur Öndvegisstyrk Safnaráðs til að stofna þrjár rannsóknarstöður í samstarfi við Listfræði við Háskóla Íslands. Þær skyldu helgaðar rannsóknum á framlagi kvenna til íslenskrar listasögu. Fyrsta sýningin var í höndum Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur sem rannsakaði feril Hildar Hákonardóttur (2023). Sú síðari heiðraði verk Borghildar Óskarsdóttur undir stjórn Aðalheiðar Lilju Guðmundsdóttur (2024). Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum er þriðja og síðasta sýningin í þessari röð. Hún byggir á rannsóknum Beckyar Forsythe sýningarstjóra.

Málþingið fer fram á íslensku. Skráning er nauðsynleg og fer hún fram á vefsíðu safnsins en aðgöngumiði á safnið gildir til þátttöku. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page