top of page

Listasafn Reykjavíkur: Rannsóknarstaða laus til umsóknar fyrir 2023

508A4884.JPG

fimmtudagur, 8. september 2022

Listasafn Reykjavíkur: Rannsóknarstaða laus til umsóknar fyrir 2023

Listasafn Reykjavíkur auglýsir lausa til umsóknar rannsóknarstöðu fyrir árið 2023.

Markmið verkefnisins er að rannsaka hlut kvenna í íslenskri listasögu og efla Listasafn Reykjavíkur sem vettvang rannsókna.

Staðan er ætluð fræðimönnum er sinna rannsóknum á sviði íslenskrar myndlistar og menningarsögu sem fellur undir starfssvið safnsins. Um er að ræða hálfa stöðu til eins árs sem vinna má eftir samkomulagi, en rannsókninni skal ljúka með útgáfu og sýningu í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum í janúar 2024.

Rannsóknarstaða Listasafns Reykjavíkur hlaut árið 2021 öndvegisstyrk Safnaráðs til þriggja ára og er unnin í samstarfi við námsbraut í listfræðum við Háskóla Íslands. Auglýst er eftir rannsakendum árlega þau þrjú ár sem styrknum hefur verið úthlutað. Þetta er í annað sinn sem staðan er auglýst, en í fyrra hlaut Sigrún Inga Hrólfsdóttir stöðuna til að vinna að rannsókn á ævistarfi Hildar Hákonardóttur og er væntanleg bók um Hildi auk þess sem opnuð verður sýning á verkum hennar á Kjarvalsstöðum í janúar 2023. Sem fyrr er stefnt að því að niðurstöður rannsókna verði birtar á fræðilegum vettvangi en auk þess skulu þær kynntar með fyrirlestri og miðlun til almennings á meðan á sýningum stendur. Rannsóknargögn og niðurstöður skulu varðveitt í Listasafni Reykjavíkur.

Umsækjendur skili inn umsókn, þar sem verkefnið er skilgreint og gerð grein fyrir því hvernig rannsóknin sé líkleg til að varpa nýju ljósi á hlut kvenna í íslenskri myndlistarsögu. Umsókn skal fylgja greinargerð um menntun og reynslu af fræðistörfum, útgáfu og/eða gerð myndlistarsýninga. Fræðimaður mun hafa aðstöðu hjá og starfa innan deildar safneignar- og rannsókna við Listasafn Reykjavíkur.

Umsókn sendist Listasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík, eða á netfangið listasafn@reykjavik.is, í síðasta lagi 1. nóvember 2022. Nánari upplýsingar veitir Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri, í síma 411 6400, eða í tölvupósti olof.kristin.sigurdardottir@reykjavik.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page