top of page

Listasafn ASÍ kallar eftir umsóknum frá myndlistarfólki

508A4884.JPG

fimmtudagur, 5. september 2024

Listasafn ASÍ kallar eftir umsóknum frá myndlistarfólki

Listasafn ASÍ auglýsir eftir umsóknum frá listafólki sem vill taka þátt í sýningum á vegum safnsins 2025. Sýningarnar verða á tveimur stöðum á landinu. Auk sýninganna kaupir safnið verk af þeim sem fyrir valinu verður/verða. Listráð safnsins fer yfir allar tillögur og velur listamann/listhóp til samvinnu um sýningar og til að kaupa af verk fyrir allt að tvær milljónir króna. Þetta er í fimmta sinn sem safnið kallar eftir umsóknum frá listafólki í þessum tilgangi.

Áhugasamir eru beðnir um að senda umsókn á netfangið info@listasafnasi.is eigi síðar en á miðnætti mánudaginn 23. september 2024. Umsóknir skulu innihalda eftirtalin gögn (vinsamlegast sendið gögnin með tölvupósti í einu pdf-skjali merktu nafni viðkomandi):

1. Ferilskrá - þ.m.t. upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og netfang; auk tengla á heimsíðu og/eða samfélagsmiðla ef við á.
2. Hugleiðing/þankar - hámark 500 orð.
3. Sýnishorn af allt að 5 verkum með stuttum skýringartexta fyrir hvert verk (hámark 200 orð hver). Ath. virða ber hámarksfjölda verka. Hafa ber innkaupastefnu safnsins í huga (sjá hér að neðan).

Opnað fyrir umsóknir: 3. september 2024
Skilafrestur: Til miðnættis 23. september 2024
Niðurstöður kynntar: Í síðasta lagi 26. september 2024

Safnið stendur straum af öllu sem viðkemur sýningarstaðnum, flutningskostnaði, tryggingum, vinnu listamannsins, ferðum og uppihaldi. Vinna listamannsins felst m.a. í uppsetningu sýninganna, listamannaspjalli, leiðsögn og móttöku skólahópa. Greiðslur taka mið af Framlagssamningi SÍM frá 2015. Engin sérstök greiðsla kemur fyrir framleiðslukostnað listaverka fyrir sýningarnar og verkin verða áfram í eigu viðkomandi að undanskildum þeim verkum sem safnið kaupir.

Listasafn ASÍ vinnur að því að koma upp nýjum sýningarsal fyrir sýningar safnsins. Samhliða þeirri vinnu er unnið eftir áætlun þar sem lögð er áhersla á að kaupa ný verk inn í safneignina og efla sýningarhald í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök víða um land. M.a. er skipulögð er tvíhliða sýningardagskrá, annars vegar sýningar á nýjum verkum samtímalistafólks og hins vegar kynning á eldri verkum í safneigninni, en þar er notast við krafta listafólks á ýmsum sviðum. Lögð er sérstök áhersla á samvinnu við skóla í þeim landshluta eða bæjarfélagi sem sýningarnar fara fram.
Listamennirnir sem valist hafa til þátttöku í sýningarverkefninu hingað til eru Sigurður Guðjónsson, Hildigunnur Birgisdóttir, Bjarki Bragason og Una B Magnúsdóttir.

Innkaupastefna Listasafns ASÍ tekur mið af því menntunar- og miðlunarátaki sem safnið hefur nú ráðist í með sýningarhaldi víða um land. Valin verða og keypt inn ný verk þar sem viðfangsefni og/eða miðill endurspegla tíðarandann með afgerandi hætti.

Listráð Listasafns ASÍ skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Daníel Björnsson ásamt safnstjóra Elísabetu Gunnarsdóttur sem jafnframt er formaður. Listráðið er skipað til tveggja ára í senn og er rekstrarstjórn safnsins til ráðuneytis um innkaupastefnu og val á listafólki.

Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa ASÍ málverkasafn sitt – um 147 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4300 verk.

Frekari upplýsingar veitir:

Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ
Guðrúnartúni 1 105 Reykjavík
+354 868 1845 og elisabet@listasafnasi.is
www.listasafnasi.is

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page