Listasafn Árnesinga - Þrjár sýningar opna þann 8. febrúar

fimmtudagur, 6. febrúar 2025
Listasafn Árnesinga - Þrjár sýningar opna þann 8. febrúar
Verið velkomin á opnun 3ja sýningar sem opna laugardaginn 8. febrúar klukkan 15:00
Léttar veitingar í boði Matkráarinnar í Hveragerði sem er einn styrktaraðili sýninga safnins og einnig mun indverska sendiráðið bjóða upp á indverskt góðgæti.
Listamenn sem sækja sér innblástur með að dvelja í listamannadvöl út um allan heim.
Í sal 1-2-3 Meðal guða og manna: Íslenskir listamenn í Varanasi
Einar Falur Ingólfsson, Eygló Harðardóttir, Guðjón Ketilsson, Margrét H. Blöndal, Sigurður Árni Sigurðsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir
Sýningarstjóri: Pari Stave
Á sýningunni Meðal guða og manna gefst innsýn í reynslu sex mótaðra og margreyndra íslenskra listamanna en verkin sem eru sýnd urðu til í tengslum við dvöl þeirra nýverið í gestavinnustofum Kriti Gallery og Anandvan Residency í Varanasi á Indlandi, sannkallaður griðastaður í sögufrægri borg með einhverja lengstu samfelldu búsetu manna. Varanasi (sem einnig er þekkt sem Banaras), er andlega miðstöð sem meðal hindúa er þekkt sem „bústaður guðanna“, með ótölulegum fjölda hofa og altara sem helguð eru ákafri tilbeiðslu. Varanasi er borg öfga og fjölskrúðgs mannlífs en jafnframt alvörugefinnar sorgar við líkbrennslurnar á tröppunum við hið helga Gangesfljót. Íslensku listamennirnir sem héldu til Varanasi fetuðu í fótspor fjölmargra annarra listamanna sem hafa farið þangað í leit að áhrifum og upplifunum. Samt var tilgangurinn ekki að myndskreyta eða túlka það sem þau rákust á; þess í stað var ætlunin að leyfa því áreiti á skynfærin, sem óneitanlega á sér stað í ferð til Indlands, flæða um taugakerfið og heilann, og sjá hvaða áhrif það myndi hafa á sköpunarverk þeirra.
Í sal 4 – BÆR
Á listasýningunni BÆR gefur að líta verk alþjóðlegra listamanna sem komu saman árið 2022 í vinnustaðadvöl á Listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði. Listamennirnir eru þau Barbara Ellmann, Jóna Þorvaldsdóttir, Mike Vos, Katia Klose, Debbie Westergaard Tuepah og Markus Baenziger. Sýningin BÆR, í Listasafni Árnesinga, er eins konar áframhaldandi könnun á þessari upprunalegu vinnustaðadvöl þeirra frá árinu 2022, þar sem varanleg tengsl og ný áhrif mynduðust í verkum hvers og eins listamanns.
Hvað tengir saman sex ólíka listamenn, af ólíkum uppruna, sem koma saman í vinnustaðadvöl í sveit í Skagafirði? Það er augljóst að íslenska náttúran hafði mikil áhrif á þau. Hvernig getur þessi reynsla endurómað í listferli þeirra þegar þau snúa aftur í hversdagsleika sinn?
Sýningarstjóri Daría Sól Andrews.
Í vídeóhorni safnsins er einnig að finna vídeóverk eftir 11 indverska listamenn sýningarstjórar eru Bharati Kapadia og Anuj Daga.
Aðrir viðburðir í safninu á sama tíma: Vídeósýningin Skírdreymi; 11 vídeóverk eftir indverska listamenn, sýningarstjórar Bharati Kapadia og Anuj Daga.
Vídeó eftir Navneet Raman af tröppunum við Ganges í Varanasi, 2012.
Sjá má meiri og ítarlegri upplýsingar á heimasíðu safnsins: www.listasafnarnesinga.is