Kristján Guðmundsson: Svo langt sem rýmið leyfir

fimmtudagur, 30. janúar 2025
Kristján Guðmundsson: Svo langt sem rýmið leyfir
Sýning Kristjáns Guðmundssonar Svo langt sem rýmið leyfir opnar í i8 gallerí þann 30. janúar næstkomandi og stendur til 22. mars 2025. Á sýningunni er ný innsetning sem nær þvert yfir alla veggi rýmisins og lengra. Sýningin er sjöunda einkasýning Kristjáns í i8 en sú fyrsta var haldin árið 1997.
Með því að tvinna saman þræði úr konseptlist og naumhyggju leitast Kristján iðulega við að nálgast kunnugleg viðfangsefni frá nýjum hliðum og opnar þannig á nýja möguleika. Svo langt sem rýmið leyfir (2025) er stór innsetning sem hefst á vinstri hönd sýningarrýmisins með ætingu á pappír. Tvö rauð horn ætingarinnar virka sem afmarkandi þættir og skapa reglu þar sem sérhver eining lengist er líður á rýmið.
Samhliða sýningunni í i8 gallerí opnar Kristján sýninguna Átta ætingar í Listasafninu á Akureyri. Verk sýningarinnar, sem eru nú sýnd í fyrsta skipti á Íslandi, eiga sér hliðstæðu sem birtist í bókverkunum Prints (2002) og Prints 2 (2002) sem Kristján gaf út hjá Silver Press, útgáfufélagi sem Kristján stofnaði ásamt Einari Guðmundssyni árið 1970. Þrátt fyrir að vera einna helst þekktur fyrir konseptlist sem raungerist oftar en ekki í skúlptúrum og teikningum er Kristján ekki síður þekktur fyrir bókverk sín, svo sem 200 Pages on Barnett Newman (2001), Once Around the Sun (1975-76) og Punktar/Periods (1972).
Á ferli sínum hefur Kristján rannsakað þanþol og endimörk listmiðla svo sem teikninga; jafnt og eðli og takmörk hugmynda okkar um rúm og tíma. Til dæmis tekst Kristján á við ógnarstórar stærðir jarðarinnar í bókverkinu Once Around the Sun (1975) sem er í tveimur bindum. Í öðru þeirra myndgerir Kristján þann tíma sem það tekur jörðina að ferðast einn hring í kringum sólu: einn punktur fyrir hverja sekúndu á heilu ári eða 31.556.926 punktar. Í seinna bindinu sýnir Kristján vegalengdina sem jörðin fer umhverfis sólina á einni sekúndu: jörðin ferðast u.þ.b. 29.771 metra á sekúndu. Viðfangsefni verka Kristjáns ná þannig einnig til vísindalegra stærða, mælieininga og tákna. Ólíkt verkinu Svo langt sem rýmið leyfir (2025) sem hefur sterkan rýmisbundinn þátt, eru önnur verk Kristjáns með tímann í forgrunni. Í Hægar, hraðar (1984) eru tvær hrúgur af grjóti sýndar hlið við hlið. Önnur hrúgan samanstendur af fínu fjörugrjóti sem hefur slípast til hægt og rólega með tímanum en hin hrúgan kemur úr vélmuldu grjóti. Þannig myndgerir Kristján tímamismuninn sem falin er í mannlegri framleiðslu annars vegar og náttúrulegri framvindu hins vegar.
Kristján Guðmundsson, fæddur á Snæfellsnesi 1941, býr og starfar í Reykjavík. Hann er einn hvatamanna SÚM-hópsins sem, undir áhrifum frá erlendum straumum eins og Fluxus og Arte Povera, olli straumhvörfum í íslenskri myndlistarsenu á sjöunda áratugnum. Kristján var virkur meðlimur í samnefndu galleríi og var forstöðumaður þess fyrsta árið þangað til að hann flutti til Amsterdam 1970 þar sem hann bjó næsta áratuginn þar til að flutti aftur til Íslands. Hann er sjálflærður og hefur sýnt víða í Evrópu og í Bandaríkjunum, meðal annars í Scandinavian House í New York, Rappaz Museum í Basel, Safn í Berlin, Haus der Kunst í Munich, MOCA í Los Angeles, Quint Contemporary Art í La Jolla, Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Malmö Kunsthall, Bozar í Brussel, Kunstmuseum Luzern í Luzern, Stedelijk Museum í Amsterdam og Centre Pompidou í París. Kristján var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 1982 en árið 1993 hlaut hann medalíu prins Eugen frá Svíakonungi, árið 2010 sænsku Carnegie verðlaunin og árið 2022 heiðursviðurkenningu myndlistarráðs fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.