top of page

Hjörtur Matthías Skúlason: TÍBRÁ 

508A4884.JPG

fimmtudagur, 21. nóvember 2024

Hjörtur Matthías Skúlason: TÍBRÁ 

Hjörtur Matthías Skúlason opnar sýningu í Mjólkurbúðinni á Akureyri föstudaginn 22. nóvember kl 17:00

Það er manninum eðlislægt að spegla sig í því sem fyrir augu hans ber og þá sérstaklega í öðrum manneskjum sem verða á vegi hans. Sjálfsmat hvers og eins á ríkan þátt í mótun og upplifun spegilmyndar og þar með sjálfsmyndar. Spegilmyndin er því ekki alltaf speglun á því sem fyrir augu ber í raun og veru, hvort sem um er að ræða raunverulega spegilmynd eða samanburð við annað í veröldinni.

Er tíbrá raunveruleg eða er hún ósnertanlegt skynbragð, hilling sem skapar skynjun okkar á umhverfinu? Rauður þráður í mínum verkum er skilgreining á hegðun. Myndlistin er performatív án þess að vera performans, stillimynd af hegðun. Sviðsetning hegðunar á hljóðlátan hátt. Kynleysi skúlptúranna er ríkjandi, dúkkur sem þrá með sínar leitandi hendur eins og ég og þú, þrá eftir samruna, heild. Að heimurinn verði heill, einn daginn. Um leið eru verkin jarðbundin, full af barnslegum uppruna og sköpunarsögu.

Hjörtur Matthías Skúlason er fæddur á Patreksfirði 1979 og ólst upp á Rauðasandi í Vesturbyggð. Hann lauk fornámi við Myndlistarskólann í Reykjavík áður en hann hóf nám í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2013 með BA gráðu í vöruhönnun. Sérkenni Hjartar síðast liðin ár eru manngerðir skúlptúrar hans, handsaumaðar dúkkur sem minna okkur á hlutskipti mannsins og tengsl við náttúruna, fegurð og óhugnað, en í tvívíðum myndverkum leitar hugur og hönd að kyrrstæðri spennu, krafti sem býr undir niðri, munúðarfullu landslagi.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page