top of page

Helgi Hjaltalín hlýtur Gerðarverðlaunin í ár

508A4884.JPG

fimmtudagur, 19. desember 2024

Helgi Hjaltalín hlýtur Gerðarverðlaunin í ár

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson hlaut Gerðarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni í dag, laugardaginn 14. desember 2024. Verðlaunin voru veitt í fimmta sinn og hlýtur Helgi viðurkenninguna fyrir ríkulegt framlag sitt til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi.

Helgi Hjaltalín hóf myndlistarnám í Breiðholtinu og stundaði svo nám við Myndlista- og handíðaskólann, Akademínuna í Düsseldof og AKI í Hollandi og að síðustu við San Francisco Art Institute. Helgi hefur verið iðinn við sýningarhald á undanliðnum rúmum 30 árum og hefur ekki aðeins staðið fyrir eigin sýningarhaldi, heldur hefur hann unnið að samsýningum og tengdist rekstri gallerís um tíma.

Verk Helga Hjaltalín Eyjólfssonar eru margbrotin, bæði hvað efnislega framsetningu og innihald varðar. Hann skapar verk sem eru óður til handverksins, nýtninnar og endurvinnslunnar með hagalega unnum verkum – gjarnan úr nytjahlutum sem enda sem klukkur, vopn eða gervifætur. Verk listamannsins bera einnig gjarnan pólitískan keim og fjalla um samfélagsleg málefni með húmorískum undirtón þar sem slóttugheit í alþjóðapólítík, listin sjálf, byrgði trúarbragða og lægstu hvatir mannsins verða jafnan að umfjöllunarefni. Verk listmannsins eru jafnframt leikur að skala þar sem fundnar myndir eru stækkaðar upp úr öllu valdi á meðan aðrir hlutir minnka niður í míníatúra.

Gerðarverðlaunin eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur í skúlptúr og rýmisverk. Verðlaunin spretta upp úr sérstöðu Gerðarsafns, sem safn stofna til heiðurs listakonu sem braut blað í sögu höggmyndalistar hérlendis og átti kröftugan feril þrátt fyrir stutta ævi.

Gerðarverðlaunin eru veitt með stuðningi Lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar og nema 1.000.000 til stuðnings við listsköpun verðlaunahafans. Dómnefnd Gerðarverðlaunanna skipa myndlistarmennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Svava Björnsdóttir ásamt Brynju Sveinsdóttur, forstöðumanni Gerðarsafns.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page