Feneyjatvíæringurinn á 21. öld – framlag Íslands

fimmtudagur, 20. mars 2025
Feneyjatvíæringurinn á 21. öld – framlag Íslands
Frábært námskeið fyrir alla unnendur myndlistar!
Feneyjatvíæringurinn í myndlist er ein mikilvægasta stórsýning á vettvangi myndlistar alþjóðlega.
Á námskeiðinu er stiklað á stóru í sögu hans, litið á tölur sem varpa ljósi á breyttar áherslur síðustu ára og skyggnst á bak við tjöldin í framkvæmd þessa stórviðburðar sem 700 þúsund manns vilja sjá annað hvert ár. Sérstaklega verður fjallað um framlag Íslands frá aldamótunum 2000 og sýning Íslenska skálans 2024, Þetta er mjög stór tala, skoðuð í Listasafni Íslands.
Á námskeiðinu er fjallað um
Sögu tvíæringsins með áherslu á samhengi og þróun frá aldamótum 2000
Val og forsendur sýninga í Íslenska skálanum
Framlag Íslands 2024 og sýningin Þetta er mjög stór tala heimsótt í Listasafni Íslands
Áhrif samfélagsbreytinga á tvíæringinn – og öfugt
Ávinningur þinn
Innsýn í sögu og samhengi alþjóðlegrar stórsýningar í myndlist sem Ísland er aðili að
Þátttaka í opnu og greinandi samtali um lykilþætti í þróun listrænna áherslna aðalsýningar tvíæringsins síðustu ára og forsendna Íslenska skálans
Góð innsýn í val á framlagi Íslands og framkvæmd Íslenska skálans
Þekking og færni í greiningu sýningar og kringumstæðna hennar
Dagsetningar:
Fimmtudagur 20. mars 17:00-19:00
Fimmtudagur 27. mars 17:00-19:00 – heimsókn í Listasafn Íslands
Fimmtudagur 3. apríl 17:00-19:00
Kennari
Hanna Styrmisdóttir er sjálfstætt starfandi sýningastjóri og ráðgjafi. Hún var sýningastjóri Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum 2007 á sýningu Steingríms Eyfjörð Lóan er komin. Hanna var áður m.a. prófessor í sýningagerð í myndlistardeild Listaháskóla Íslands og listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Hún hefur lokið diplómagráðu á meistarastigi í listheimspeki við Listaháskólann í Malmö / Háskólann í Lundi, MA gráðu í myndlist við Chelsea listaháskóla í London og BFA gráðu í myndlist við Parsons School of Design í París og New York.