Endurgerð = Didda H. Leaman
miðvikudagur, 27. mars 2024
Endurgerð = Didda H. Leaman
Verið öll hjartanlega velkomin á opnun "Endurgerð", sýningu Diddu H. Leaman, miðvikudaginn 27. mars kl 16-18. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna eru verkin á sýningunni endurgerðir af nokkrum verkum unnum á undanförnum árum, ásamt frummyndunum.
Þau eru abstrakt frekar en hlutbundin, eða, e.t.v. á mörkum þess hlutbundna og óhlutbundna.
Myndirnar vísa í náttúruna og ýmis fyrirbæri hennar, svo sem liti og birtuskilyrði, áhrifa frá ferðalögum milli Reykjavíkur og Hólmavíkur gætir mörgum í myndanna. Þær túlka myndheim sem stenst ekki fyrirfram gefin náttúruskilyrði. Skuggar falla sinn í hvora áttina, svo óvissa ríkir um ljósgjafa. Atriði sem heilla myndhöfund túlka huglæg náttúrufyrirbæri, þetta er náttúra sem býr í hausnum á manni, eða náttúrufyrirbæri yfirfærð í hugann, þar sem náttúrulögmálum er breytt og endurteknar tilraunir gerðar með eigin hugmyndir og fagurfræðiviðmið.
Didda H. Leaman stundaði myndlistarnám á Íslandi, Finnlandi og Bretlandi, auk þess að bæta við sig námi í kennslufræði sjónlista og sjónlýsingum fyrir blinda og sjónskerta.
Eftir námslok í málaradeild við Slade School of Fine Art, University College London bjó hún í London í 20 ár, en hefur verið búsett í Reykjavík frá 2007. Árið 2017 hófst svo Hólmavíkurævintýri Diddu, en frá þeim tíma hefur hún dvalið hluta ársins á Hólmavík.
Didda hefur dvalið í vinnustofum listamanna í Kathmandu í Nepal og Novi Sad í Serbíu. Auk fjögurra mánaða námsdvalar í Barselóna.
Didda er meðlimur SÍM og var meðlimur bow arts í Austur-London, þar sem hún var með vinnustofu. Hún var um tíma sýningarstjóri Hoffmannsgallerís, samstarfsverkefnis Myndlistaskólans í Reykjavík og ReykjavíkurAkademíunnar og meðlimur Nýlistasafnsins, auk þess að taka þátt í nokkrum verkum á vegum
Nýlókórsins. Didda var meðlimur í ARTgallerí Gátt og er einn af stofnfélögum Listfélagsins Steingrímur, sem hefur það markmið að auka aðgengi að listum og menningu á Ströndum.