top of page

Endurbætur að hefjast á útilistaverki við Háaleitisbraut

508A4884.JPG

fimmtudagur, 21. nóvember 2024

Endurbætur að hefjast á útilistaverki við Háaleitisbraut

Endurbætur eru að hefjast á útilistaverkinu Landnám eftir Björgvin Sigurgeir Haraldsson en verkið stendur við Háaleitisbraut og mun það verða endurgert og sett á sinn fyrri stað að því loknu. Landnám er í umsjá Listasafns Reykjavíkur og var nýlega veittur veglegur styrkur úr minnisvarðasjóði Þórs Sandholts til þess að vinna að endurgerð þess. Landnám var sett upp árið 1975 um það leyti sem hverfið var að byggjast upp. Á þessum nær fimmtíu árum hefur verkið veðrast illa og því nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir. Vinnan við endurgerðina hefst nú í nóvember og er áætlað að verkinu ljúki 2025. Það er Verkstæðið ehf. sem sér um framkvæmdina fyrir Reykjavíkurborg í góðu samstarfi við listamanninn.

Útilistaverkið Landnám eftir Björgvin Sigurgeir Haraldsson (f.1936) stendur við Háaleitisbraut í Reykjavík og var sett upp í tilefni af ellefuhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar. Landnám er stórt og tígulegt verk úr samsettum steinplötum sem sýnir tvo landnámsmenn, víkinga, sem standa í stafni og horfa einbeittir á ónumið land.

Myndlistarmaðurinn Björgvin Sigurgeir er fæddur að Haukabergi í Dýrafirði árið 1936. Hann er málari, skúlptúristi og myndlistarkennari, lengst af við Myndlista- og handíðaskóla Íslands auk þess sem hann er þekktur fyrir skrif sín um listir. Björgvin Sigurgeir stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1958-60, Myndlistarskólann í Reykjavík 1959-61 og Staatliche Hochschule für bildende Künste í Hamburg 1961 og 1962. Þá nam hann við Statens Håndverks- og Kunstindustrieskolen og Statens lærerskole í Ósló 1970-71. Björgvin hefur haldið nokkurn fjölda sýninga, til dæmis einkasýningar í Unuhúsi 1968, Norræna húsinu 1975 og á Kjarvalsstöðum 1986.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page