Óli K.: Útgáfuhóf og sýning
fimmtudagur, 14. nóvember 2024
Óli K.: Útgáfuhóf og sýning
Fimmtudaginn 14. nóvember verður útgáfu bókar um ævistarf Ólafs K. Magnússonar ljósmyndara fagnað í Ásmundarsal á milli kl. 17 og 19, um leið og sýning með nokkrum verka hans opnar á kaffihúsinu Reykjavík Rosters á jarðhæð.
Þegar Óli K. hóf störf á Morgunblaðinu 1947 var hann fyrsti fastráðni blaðaljósmyndarinn á Íslandi. Starfsævi hans spannaði um hálfa öld og á þeim tíma markaði hann sér sess sem mikilvægur þátttakandi á sviði íslenskrar menningar. Andartök og augnablik Íslandssögunnar urðu að sýnilegum minjum í ljósmyndum hans. Hann tók utan um andrúm og tilfinningar og gaf þeim form, gerði menn og konur að leikendum á sviði tímans – var staddur þar sem sagan gerðist.
Í bókinni eru verk Óla K. birt, bæði víðkunnar myndir sem óþekktar. Um leið er saga hans sögð ítarlegar en áður hefur verið gert: Uppvöxtur í Reykjavík í skugga sviplegs fráfalls föður hans, námsárin í Bandaríkjunum og síðan þrotlaust starf hans við að ljósmynda lífið í landinu.
Það er löngu tímabært að gera þessum frumkvöðli góð skil og því mikill fengur að þessu glæsilega verki, sem skrifað er af Önnu Dröfn Ágústdóttur sagnfræðingi og lektor við Listaháskóla Íslands, en hún skrifaði einnig vinsælu bækurnar Reykjavík sem ekki varð og Laugavegur í samstarfi við Guðna Valberg arkitekt. Bókin Óli K. er hönnuð af Kjartani Hreinssyni sem, ásamt Önnu Dröfn, er myndritstjóri bókarinnar. Angústúra gefur bókina út en hún er unnin í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Velkomin að fagna með okkur útgáfu þessa tímamótaverks!