Íslensku myndlistarverðlaunin 2025

fimmtudagur, 27. mars 2025
Íslensku myndlistarverðlaunin 2025
Íslensku myndlistarverðlaunin voru afhent í áttunda skipti í Iðnó fimmtudaginn 20. mars s.l.
Pétur Thomsen var valinn myndlistarmaður ársins 2025. Logi Einarsson, Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra afhenti verðlaunin. Þau hlýtur Pétur fyrir sýninguna Landnám sem stóð yfir í Hafnarborg síðastliðinn vetur. Verðlaunaféð er ein milljón króna.
Að mati dómnefndar var sýningin Landnám einstaklega vel útfærð, þar hafi mátt skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Pétri hafi, með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum, tekist að skapa áhrifaríkt samtal milli sýningarinnar og áhorfandans.
Helena Margrét Jónsdóttir hlaut hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna. Dómnefndin komst svo að orði að málverk Helenu virkjuðu ímyndunaraflið og færðu áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Listakonan Shoplifter afhenti viðurkenninguna. Hlaut Helena Margrét kr. 500.000 í verðlaunafé.
Erró hlaut heiðursviðurkenningu myndlistarráðs árið 2025. Erró er í fremstu röð íslenskra myndlistarmanna og hlýtur viðurkenningu fyrir höfundarverk sitt á ferli sem spannar rúma sex áratugi. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri afhenti viðurkenninguna sem Ari Trausti Guðmundsson, bróðir Errós, tók við. Erró er búsettur í París og átti ekki heimangengt. Hann sendi stutta kveðju í myndskilaboðum.
Viðukenningar hlutu einnig sýningin Hamskipti - Listsköpun Gerðar Helgadóttur Gerðarsafni, fyrir áhugaverðasta endurlitið, sýningin Textílfélagsins 50/100/55 fyrir hugaverðustu samsýningu ársins og útgáfu ársins hlaut ljósmyndabókin FÖR eftir Agnieszku Sosnowska.
Myndlistarráð stendur að baki verðlaununum sem hafa það að meginmarkmiði að vekja athygli á því sem vel var gert á sviði myndlistar á liðnu ári.


