Ásta Fanney á Feneyjatvíæringinn 2026
fimmtudagur, 5. desember 2024
Ásta Fanney á Feneyjatvíæringinn 2026
Ásta Fanney Sigurðardóttir fer sem fulltrúi Íslands á tvíæringinn í myndlist í Feneyjum árið 2026. Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands.
Ásta Fanney er fjölhæfur listamaður og fæst við margar listgreinar. Hún gerir gjörninga, skúltptúra, málverk, semur ljóð, gerir kvikmyndir, semur tónverk og skrifar texta. Það verður því spennandi að sjá hvernig hún tekst á við þetta stóra verkefni sem framundan er.
Verk hennar einkennast af næmni og hráleika, þar sem kímni og alvara, hefð og framúrstefna fléttast saman í óræða heild sem umvefur á kunnuglegan en jafnframt framandi hátt og bendir á ný og óvænt sjónarhorn. Hún vinnur gjarnan með hverfulleika og orkusvið í tímatengdum verkum sem birtast og hverfa jafnóðum.
Ásta Fanney hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Ars Longa, Onassis og MOT og var tilnefnd til Bernard-Heidsieck-Centre Pompidou verðlaunanna í Frakklandi árið 2021.
Tvíæringurinn í Feneyjum er einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu og það er mikill heiður fyrir þann íslenska myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni. Í ár komu um 700.000 gestir að skoða sýningarnar á tvíæringnum.
Ísland hefur tekið þátt með sinn fulltrúa frá árinu 1960 og hefur þátttakan verið bæði gefandi og mikilvæg fyrir listamennina sem tekið hafa þátt.