Fréttatilkynning frá Listasafninu á Akureyri: Nýtt merki, ný heimasíða og fjölbreytt dagskrá árið 2015

Listak_logo_A4_print_landscape            Lista-prent[2]

Listasafnið á Akureyri heilsar árinu 2015 með nýju merki, nýrri heimasíðu og fjölbreyttri dagskrá. Jafnframt verður nafnið Sjónlistamiðstöðin lagt til hliðar og Ketilhúsið gert að sýningarsal Listasafnsins sem mun þar af leiðandi standa fyrir sýningarhaldi í tveimur byggingum, þ.e. Listasafnsbyggingunni og Ketilhúsinu. Deiglan hefur nú verið færð í umsjá Gilfélagsins.

Dagskrá ársins hefur verið dreift í öll hús á Akureyri og nýja heimasíðan, www.listak.is, fer í loftið á næstu dögum. Nýtt merki safnsins hefur verið tekið til notkunar og er höfundur þess Ólafur Númason, grafískur hönnuður hjá Geimstofunni sem hannar allt kynningarefni fyrir Listasafnið á Akureyri og er einn helsti styrktaraðili þess.

Merkið samanstendur af táknmynd af letri. Táknið myndar L, Á og A sem eru upphafsstafir Listasafnsins á Akureyri. 
Einnig má lesa stafinn M úr tákninu sem er upphafsstafur museum (safn).

Merkið er staðfast og táknin lifandi. Formin eru frjáls og skýr tenging í listina. Hreyfing er í táknunum, eins og þau renni saman í eitt og myndi samstöðu og styrk. Fyrsta formið er tenging við hornið á byggingu Listasafnsins. Leturgerðin er Brandon Grotesque.

Framundan er árið 2015 með 23 sýningum og verða tvær þær fyrstu opnaðar næstkomandi laugardag, 10. janúar, kl. 15. Í mið- og austursalnum verður yfirlitssýning á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur, Listakonan í Fjörunni, en í vestursalnum sýnir Habby Osk undir yfirskriftinni (Ó)Stöðugleiki. Síðarnefnda sýningin er hluti af sýningaröð sem mun standa frá 10. janúar til 8. mars og inniheldur 8 vikulangar sýningar. Aðrir sýnendur eru Brenton Alexander Smith, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristján Pétur Sigurðsson, Þóra Karlsdóttir, Joris Rademaker, Lárus H. List og Arnar Ómarsson.

 

Á meðal annarra listamanna sem sýna má nefna Jan Voss, Mireyu Samper, Rósu Sigrúnu Jónsdóttur og Ragnheiði Þórsdóttur. Tvær útskriftarsýningar eru á dagskrá ársins, bæði frá nemendum VMA og Myndlistaskólans á Akureyri. Listasumar verður endurvakið og markar sýning RÓT-hópsins upphaf þess þann 20. júní en hátíðin stendur fram yfirAkureyrarvöku.

 

Fjölmargar áhugaverðar samsýningar eru einnig á dagskrá ársins s.s. haustsýning Listasafnsins þar sem úrval verka eftir norðlenska myndlistarmenn verður til sýnis. Í Ketilhúsinu verður vorinu fagnað með samsýningu skólabarna og starfandi listamanna undir yfirskriftinni Sköpun bernskunnar. Gjörningahátíð og samsýning norðlenskra vöruhönnuða ættu að höfða til margra en endapunktur ársins er samsýning norrænna grafísklistamanna.

 

Auk Geimstofunnar eru helstu bakhjarlar Listasafnsins á Akureyri: Ásprent, Flugfélag Íslands, Rub23, Norðurorka og Stefna.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com