Frambjóðendur til formanns SÍM – Kynningar – Steingrímur Eyfjörð


Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í embætti formanns SÍM.

Ég hef verið virkur stjórnarmeðlimur í stjórn SÍM í fjögur ár og tel mig þess vegna hafa kynnst vinnubrögðum og starfsemi í félaginu á þessum tíma. Ég er einn af stofnendum Nýlistasafnins og hef verið tvisvar í stjórn þar. Verið í ritstjórn tveggja menningartímarita, tekið þátt í rekstri á sýningarsal, skipulagt ráðstefnu og séð um sýningarstjórn. Ég tel mig þekkja stöðu myndlistar bæði sögulega, réttindalega og hef verið þátttakandi í breytingum og verið vitni að forsendum fyrir stöðu myndlistar í dag. Það er mjög mikilvægt að formaður SÍM komi af vettvangi starfandi myndlistarmanna. Formaður SÍM er ekki lengur með að aðalstarfi að sækja fundi og sjá um skrifstofustörf, heldur verður starf formanns SÍM vekefnamiðað. Í samvinnu við starfandi myndlistarmenn hef ég sett saman tillögur að verkefnum sem talið er að skipti máli fyrir réttindabaráttu okkar félagsmanna.

Ég tel það nauðsynlegt að félagar SÍM átti sig á stöðu SÍM áður en núverandi formaður var kosinn, þá var það mat margra starfandi myndlistarmanna að tefla fram nýjum formanni og ef það gengi ekki eftir að þá yrði stofnað nýtt félag. Það munaði einu atkvæði að ekki væri farið yfir götuna úr SÍM húsinu á veitingastaðinn Hornið og stofnað nýtt félag myndlistarmanna. Síðan kom í ljós að starfsfólk SÍM var reiðubúið að ganga út og væntanlega sitja stofnfund nýs félags. Sem betur fer náði núverandi formaður kjöri á þessu eina atkvæði og við það hafa orðið töluverðar breytingar á starfsemi SÍM. Það eru ekki nema um fjögur ár síðan að við lá að stofnað yrði félag starfandi myndlistarmanna. Án starfandi myndlistarmanna í SÍM væri enginn grundvöllur fyrir tilveru SÍM. Formannskjör eru alltaf tímamót. Hvert atkvæði skiptir máli.

30% lækkun á leigu á vinnustofum
Til að listamaðurinn geti unnið að sköpun sinni verður hann að hafa sérstakt húsnæði eða vinnustofu. Þörfinni fyrir vinnustofur hefur verið mætt af félaginu undir forystu Ingbjargar Gunnlaugsdóttur, sem hefur unnið þar frábært starf. Á vegum SÍM eru um 200 vinnustofur í  7 byggingum, en þörfin fyrir fleiri vinnustofur hefur aldrei verið meiri. Á almennum markaði er húsnæði sem nýtist sem vinnustofur með tiltölulega hærri leigu miðað við fermetra en þær vinnustofur sem SÍM býður upp á, en þrátt fyrir það eru vinnustofur SÍM of dýrar miðað við þann kostnað sem listamenn verða að bera við vinnu sína. í sumum tilfellum hafa listamenn þurft að velja milli þess að kaupa efni í listaverk eða leigja vinnustofu. Sem formaður SÍM mun ég beita mér fyrir því að lækka leiguna á vinnustofum um 30%, en væntanlega yrði það að veruleika í gegnum ríki eða borg og þá svipað og húsaleigubætur.

Ímynd myndlistar
Grunnverkefni SÍM í framtíðinni er að leiðrétta mat stjórnvalda á menningarlegu framlagi myndlistar til samfélagsins.  Ein af mörgum birtingarmyndum slíks ójafnvægis milli listgreina er hversu ójöfn eru framlög stjórnvalda til mismunanndi listgreina. Til dæmis fá tónlistarmenn og rithöfundar 90% hærra framlag til að kynna sína listgrein en myndlistarmenn. Þessi staða er óásættanleg með öllu og segir okkur líka að starf myndlistarmanna er ekki metið að verðleikum. Þennan ójöfnuð milli listgreina verður að leiðrétta, það verður að hafa það hugfast að ábyrgðin á núverandi stöðu er fyrst og fremst myndlistarmanna og SÍM.

Borgum myndlistarmönnum
Herferðin Borgum myndlistarmönnum á sér 10 ára langa sögu og byrjaði löngu áður en núverandi formaður og stjórn SÍM erfði verkefnið og er ekki nærri lokið, því að það á eftir að fá höfuðsafn myndlistarinnar, Listasafn Íslands, til að viðurkenna framlagssamninginn og borga myndlistarmönnum. Listasafn Íslands er undirmannað og fjársvelt og þess vegna hefur það ekki burði til að framfylgja lögbundinni starfsemi sinni.  Það er nokkuð ljóst að Listasafn Íslands þarf meira rekstrarfé til þess að vera fært um að borga myndlistarmönnum eða endurskoða rekstur listasafnins í samræmi við nýjar kröfur myndlistarmanna. Reyndar hefur safnið borgað myndlistarmönnum en ekki samkvæmt neinum taxta  og verið eingreiðsla án sundurliðunar og samið við hvern og einn listamann.

Listskreytingasjóður
Til þess að Listskreytingasjóður fari að lögum er mikilvægt að stofna vinnuhóp sem skilar af sér greinargerð og aðgerðaáætlun sem skilar raunverulegum árangri, en ekki bara matsgerðum og umræðu, heldur aðgerðum.

Útrás
Það er orðið nokkuð ljóst að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar KÍM, hefur ekki burði til að þjóna myndlistarmönnum sem hafa áhuga á að sýna erlendis. Þess vegna tel ég að SÍM ætti að koma af stað tilraunaverkefni sem miðaði starf sitt við að veita myndlistarmönnum þjónustu við að sýna hvar sem er í heiminum. Slíkt tilraunaverkefni yrði að vera í samvinnu við aðrar stofnanir en SÍM og fjármagnað af styrkjum. SÍM ætti að mynda bandalag við valda íslenska sýningarstjóra og útvega fjárstuðning til að ráða sýningarstjóra til afmarkaðs tímabils, til að setja upp sýningar erlendis á verkum íslenskra myndlistarmanna og tengja þá betur við alþjóðlega listasenu með ýmsum hætti.

Efnissafn
Fyrir nokkrum árum byrjaði verkefni að koma á kynningu á því sem kallað er efnissafn (Material Library) undir leiðsögn Söru Stefánsdóttur bókasafnsfræðings. Því miður náði þetta verkefni ekki lengra en að vera á umræðustigi. Mikilvægt er að koma á kynningu á nýjum efnum sem nýtast myndlistarmönnum og um leið opna fyrir leiðir að slík efni verði flutt til landsins í samvinnu við vöruhönnuði og arkitekta.
Í ekki svo fjarlægri framtíð mun koma upp sú krafa að myndlistarmenn noti umhverfisvæn efni í gerð listaverka og að meðferð efna fari eftir heilsufarslegum reglum. SÍM verður að vera viðbúið slíkum breytingum.

Skattaafsláttur af kaupum á myndlistarverkum
Til þess að hið falda hagkerfi myndlistarinnar komist upp á yfirborðið, raunverulegt verðmyndunarkerfi verði til og að sala á myndlistarverkum aukist, er leiðin að við kaup á myndlistarverkum verði gefinn skattaafsláttur. Til þess að koma þessari tilhögun af stað yrði slík vinna í samráði við gallerí, söfn, safnara og aðra þá aðila  sem málið varðar.  Á sama tíma verður að fá rýmkun á frádrætti til skatts á hráefni og tækjabúnaði við gerð myndlistarverka.  Ef ég verð kosinn formaður mun ég sjá til þess að á næsta ári verði ráðstefna haldin um mikilvægi þess að veita kaupendum listaverka skattaafslátt, einnig almennt um hugsanlega styrki til gerðar á listaverkum og verðmyndunarkerfi myndlistar. Slík ráðstefna mun örugglega vekja áhuga og athygli, sem þarf til þess að koma þessu máli í höfn.

Símenntun
Til að koma til móts við kröfuna um símenntun ætti SÍM að standa að mánaðarlegum fyrirlestrum um mismunandi málefni og ekki endilega eitthvað sem tengist myndlist, heldur frekar því sem tengist öðrum greinum. Ekki ósvipað því hvernig tímaritið Cabinet er byggt upp. Leshringurinn Hringurinn gæti opnað Hringinn fyrir félaga SÍM og gæti skipulagt leshringi og skipst á að velja fyrirlesara.

Lýðræði og gegnsæi
Nauðsynlegt er að þegar upp koma álitamál um ákvarðanir stjórnar SIM og félagsmanna SÍM og ef um hagsmunaárekstra er að ræða þá beri stjórn SÍM að boða til lýðræðislegrar kosninga um slík deilumál og komast að niðurstöðu á lýðræðislegan hátt.
Nýlega kom upp ágreiningsmál hvað varðar reglur um þak á tíma sem hægt er að leigja vinnustofur hjá SÍM. Þetta er mál sem á að leysa á lýðræðislegan hátt, en ekki eins og gert var með einhliða ákvörðun af hálfu formanns SÍM og stjórnar.
Samkvæmt lögum SÍM þá eru allir félagar SÍM jafn réttháir.  Samkvæmt nýjum reglum sem notaðar eru til úthlutunar á vinnustofum SÍM er notaður annar mælikvarði. Þetta nýja fyrirkomulag skilgreinir félaga SÍM á annan hátt en útfrá félagsaðild. Fyrir þessar breytingar var nóg að sækja um og fara á biðlista til að fá vinnustofu, án þess að tilgreina nokkuð annað en félagsaðild. Núna verða þeir sem sækja um að vera með eitthvað meira uppá að bjóða til þess að fá úthlutaðar vinnustofur. Með þessu er Stjórn SÍM að skilgreina suma félaga SÍM betri en aðra. Allir félagar SÍM eiga að hafa sama rétt og félagsaðild á að tryggja rétt hvers og eins félaga til hvaða þjónustu sem SÍM býður upp á.

Vilja félagar SÍM að þeim sé mismunað?

BHM
Gert verður reglulega átak til að kynna BHM fyrir félögum SÍM og veitt verður aðstoð við skráningu.

Trúnaðarmaður
Þar sem SÍM hefur stækkað og félögum hefur fjölgað verulega, er mikilvægt að skipa trúnaðarmann, sem yrði valinn af félögum SÍM og yrði óháður stjórn SÍM.

SÍM á tímamótum.
SÍM eru regnhlífarsamtök myndlistarmanna og þess vegna geta þarfir í sérhæfðum félögum innan SÍM verið mismunandi og einnig hagsmunir og þarfir einstakra félagsmanna. Til að mæta þessum nýju þörfum þarf SÍM að endurskoða rekstur félagsins og auka þjónustu við félagsmenn. Mikilvægt er að SÍM skapi vettvang frumkvæðis fyrir félaga SÍM.

Það sem var talið óhugsandi fyrir nokkrum árum, er orðið að veruleika.

Borgum myndlistarmönnum.

Framboðsfundur verður haldin 17.maí n.k. í SÍM húsinu, Hafnarstræti 16. 

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com