Frambjóðendur til formanns SÍM – Kynningar – Anna Eyjólfsdóttir

Til félagsmanna SÍM

Ég gef kost á mér til formanns SÍM vegna brennandi áhuga á faglegum málefnum okkar myndlistarmanna og löngun til að vinna að bættum starfsgrundvelli og hagsmunum okkar fólks. Ég hef reynslu af félagsmálum og samskiptum við ráðamenn ríkis og borgar. Sem formaður mun ég halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið í stjórn SÍM. Margt hefur áunnist, sumir áfangasigrarnir eru sýnilegir en aðrir minna áberandi.

Myndlist og félagsmál myndlistarmanna eiga hug minn allan. Ég hef verið í stjórn SÍM undanfarið ár, og var formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík frá 1997 – 2004. Ég er einn stofnenda Akademíu skynjunarinnar og rak gallery Start Art við Laugaveg frá 2007 – 2009 ásamt fleirum. Þess má geta að ég hef safnað verkum íslenskra leirlistarmanna, munirnir eru allt frá upphafi íslenskrar leirlistar til dagsins í dag. Þetta safn (hátt í 2000 munir) er nú orðið stofninn að leirmunadeild í Hönnunarsafni Íslands. Enn fremur hef ég skipulagt og verið sýningarstjóri nokkurra stórra samsýninga, nú síðast Hverfing | Shapeshifting í Verksmiðjunni á Hjalteyri síðastliðið sumar.

Ég ætla ekki að gefa út röð loforða, og alls ekki bera fram óraunsæ loforð. Eina loforðið sem ég gef er að ég mun vinna af fullri alvöru og alúð til að ná árangri í okkar þágu. Það er af mörgu að taka og vil ég hér nefna nokkur atriði sem ég mun beita mér fyrir nái ég kjöri sem formaður SÍM.

Ég mun m.a leggja áherslu á:

1. Ný sýningarrými fyrir myndlistarsýningar

2. Skattaafslátt við listaverkakaup og styrki til myndlistarmála.

3. Halda áfram baráttunni Borgum myndlistarmönnum

4. Koma á fót myndlistarmessu

5. Virkja Listskreytingasjóð

6. Endurvekja Listskreytingasjóð Reykjavíkur

7. Efla þátt myndlistar í samfélaginu og auka myndlistarmenntun í skólum

8. Halda áfram uppbyggingu vinnustofukerfis SÍM

1. Sýningarrými

Við þurfum fleiri sýngarrými og gott fyrsta skref er húnæði sem við höfum þegar afnot af en það er Hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum. Það er hægt að lagfæra húsnæðið þannig að þar verði góður sýningarsalur, verðugur fyrir framsækna myndlist. Þar á að vera hægt að setja upp nokkuð stórar sýningar hvort heldur er stórar einkasýningar, eða samsýningar. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, óskastaða flestra myndlistarmanna. Þar sem flóra listarinnar getur blómstrað í einka – og eða samsýningum. Næg bílastæði eru á staðnum auk þess sem strætó gengur þangað og göngu-og hjólastígar liggja að Korpúlfsstöðum frá öllum borgarhlutum Reykjavíkur.

2. Skattaafsláttur

Mikilvægt er að koma stjórnvöldum í skilning um að skattaafsláttur til þeirra sem styrkja eða kaupa myndlist er allra hagur. Fyrirtæki og einstaklingar ættu að sjá það sem kost að auka viðskipti sín við listamenn. Mörg ár eru liðin síðan baráttan um skattaafslátt hófst, en henni hefur ekki verið fylgt eftir í nokkur ár. Listasjóður Atvinnulífsins var stofnaður á sínum tíma fyrir tilstilli atvinnurekanda og listunnenda, til að hvetja fyrirtæki til að kaupa myndlist, en eftir nokkurra ára baráttu lagðist sjóðurinn af. Má þar um kenna að forsvarsmenn fyrirtækja höfðu ekki skilning á mikilvægi myndlistar. Öruggt má telja að í þessu máli hefði skattaafsláttur komið verulega að gagni.

Ekki má hætta að hamra járnið, þó hægt gangi. Þetta sést best á átakinu “Borgum listamönnum”. Það mál tók nokkra áratugi, eða allt frá stofnun SÍM, áður en tókst að ná því á þann stað sem það er í dag.

3. Borgum Myndlistarmönnum

Verkefnið Borgum myndlistarmönnum er eitt af mikilvægusta hagsmunamálum myndlistarmanna. Stjórn SÍM hefur unnið mikið og gott starf í þeim málum og margt hefur áunnist. Ég mun leggja áherslu á að fylgja málinu eftir, og færa út kvíarnar eins og hægt er.

4. Myndlistarmessa á Íslandi

Ég álít að það sé tímabært að setja af stað alvöru myndlistarmessu í Reykjavík. Myndlistarmessa þjónar tvennum tilgangi, að auka sýnileika myndlistar og veita yfirsýn yfir hin margbreytilegu svið listarinnar. En einnig að gera fólki kleift að nálgast listaverk á aðgengilegan hátt með kaup í huga. Við þurfum að fá aukin tækifæri til að kynna myndlist okkar og koma henni á framfæri. Ísland á marga ónýtta möguleika til að auka sýnileika myndlistar en það gerum við best með auknum tækifærum til að koma fram. Í þessu samhengi þarf að koma til samstarf milli allra stofnana myndlistarsviðsins, bæði opinberra safna, listamannarekinna gallería/ sýningarrýma og viðskiptamiðaðra gallería, en einnig Íslandsstofu og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

5. Listskreytingasjóður ríkisins

Brýnt er að fá Alþingi til að leggja lögbundið fjármagn í Listskreytingasjóð ríkisins. Það hefur verið mikill misbrestur á að svo sé og sjóðnum því ekki gert kleift að starfa sem skyldi. Ég vil benda á að hér er ekki eingöngu um að ræða niðurskurð gagnvart atvinnumöguleikum myndlistarmanna. Það er verið að brjóta á réttindum almennings. Sjóðurinn var stofnaður til að tryggja að almenningur hafi beinan aðgang og möguleika á að njóta faglegrar myndlistar í nærumhverfi sínu, þ. e. í opinberu rými og byggingum. Í þeim löndum sem við viljum bera okkur við eru samskonar sjóðir oft nefndir 1% sjóðurinn, og þar er 1% reglunni fylgt út í æsar, og þykir sjálfsagt.

6. Listskreytingasjóður Reykjavíkurborgar

Það mál er þannig statt að fyrir nokkrum árum var settur saman starfshópur á vegum borgarinnar með aðild fulltrúa SÍM, sem samdi reglur um Listskreytingasjóð Reykjavíkurborgar. Búið var að eyrnamerkja sjóðnum fé, en þá breyttist pólitískt landslag og fénu var veitt annað, og stofnun sjóðsins slegið á frest. Mikilvægt er að taka þá vinnu upp aftur og koma sjóðnum í gagnið.

7. Myndlistarmenntun

Nauðsynlegt er að þrýsta á um aukið vægi listgreinakennslu á grunnskólastigi, sér í lagi myndlistarkennslu. Við rekumst aftur og aftur á þá staðreynd að myndlistarþekking landsmanna er lítil, og má segja að ábyrgðin liggi hjá yfirvöldum mennta- og menningarmála, en þar hefur alla tíð verið skorið við nögl þegar kemur að fræðslu um myndlist í almenna menntakerfinu. Við Íslendingar stöndum öllum nágrannalöndum okkar langt að baki þegar kemur að menningarlæsi, og ekki síst myndlistarlæsi. Eins og kunnugt er, þá örvar menntun á myndlistarsviði hæfileika til skapandi hugsunar, með þessari niðurskurðar stefnu er verið að skerða lífsgæði einstaklinganna.

Annað atriði sem vegur þungt, er að fólk sem hefur ekki fengið tækifæri til að læra að meta menningu í uppvexti, er illa undirbúið til að gera slíkt á fullorðinsárum. Þetta helst í hendur við afar takmarkaða vitund stjórnenda fyrirtækja um menningarábyrgð þeirra. Þetta er ein af orsökum þess hve erfitt er að fá stjórnir fyrirtækja til að leggja menningunni lið.

8. Vinnustofur listamanna

Vinnustofurnar hafa verið til umræðu undanfarið. SÍM tekur á leigu húsnæði undir vinnustofurnar og áframleigir þær myndlistarmönnum á kostnaðrverði. Þörfin er mikil og margir myndlistarmenn eru á biðlista eftir vinnustofum. Ég mun leggja áherslu á þetta mikilvæga málefni, rekstur vinnustofa fyrir félagsmenn, og halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið. Ég mun leitast við að fjölga vinnustofum og efla þessa starfsemi eins og kostur er svo fleiri geti notið. Ég mun leggja mig fram um að sátt sé um fyrirkomulag starfseminnar. Enn fremur vil ég vinna að því að fundin verði góð lausn fyrir geymslur listaverka fyrir félagsmenn, sem listamenn geti leigt.

Að lokum.

Ég tel mikilvægt að formaður SÍM hafi reynslu af félags- og skipulagsmálum myndlistar og sé starfandi myndlistarmaður með yfirgripsmikla þekkingu og skilning á þörfum myndlistarmanna.

Kærar kveðjur

Anna Eyjólfsdóttir

Framboðsfundur verður haldin 17.maí n.k. í SÍM húsinu, Hafnarstræti 16. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com