Frambjóðendur til formanns SÍM – Kynningar – Ásdís Spanó

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Samband íslenskra myndlistarmanna og tel að reynsla mín og þekking á ólíkum sviðum myndlistar geti stutt og eflt starfsumhverfi myndlistarmanna og nýst við að gæta brýnna hagsmuna þeirra og réttinda.  Ég tel að vinna þurfi að því markmiði að auka samstöðu innan greinarinnar svo unnt verði að bæta og styrkja stöðu myndlistar á Íslandi.  Það er ljóst að auka þarf verulega fjárframlög til myndlistar eftir langvarandi þurrð og enn fremur þarf að efla virðingu fyrir lögum og réttindum myndlistarmanna.

Ég tel brýnt að nýr formaður SÍM beini sjónum sínum að eftirfarandi verkefnum á næstu misserum með það að markmiði að styðja við og auka samstöðu á sviði myndlistar.

Í fyrsta lagi tel ég að endurskoða þurfi lög um listaverk í opinberum byggingum og á útisvæðum (Myndlistarlög, 2012 nr. 64 IV. Kafli). Tryggja þarf að 1% reglan gildi, þ.e.a.s. að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberra nýbygginga til listaverka fyrir bygginguna og umhverfi hennar. Einnig að framlagi Alþingis til Listskreytingasjóðs ríkisins, sem verja á til listskreytinga í eldri opinberum byggingum, sé fylgt eftir af festu.  Samkvæmt 17 g. Myndlistarlaga á Alþingi árlega að veita fé í sjóðinn en því hefur ekki verið fylgt eftir síðan 2008.

Í öðru lagi þarf að auka almenna umfjöllun um myndlist og skapa farveg fyrir myndlistarmenn og verk þeirra til þess að verða sýnilegri.  Dagur myndlistar hefur tekist vel til við að efla vitund samfélagsins á starfi myndlistarmanna en  hægt er að gera enn betur og finna nýjar leiðir til þess að gera myndlistarmenn sýnilegri og auka skilning almennings á mikilvægi myndlistar og starfi myndlistarmanna í samfélaginu. Þá þarf ekki síður að huga að leiðum til að tengja myndlistarvettvanginn betur atvinnulífinu.

Í þriðja lagi þarf að halda áfram að styðja við þá góðu vinnu sem unnin hefur verið í með verkefninu Við borgum myndlistarmönnum, en sú vinna er komin vel á veg. Öll listasöfn sem sýna list núlifandi myndlistarmanna og eru rekin með opinberum framlögum þurfa að útbúa sína samninga og fá viðbótar-framlög svo hægt sé að greiða myndlistarmönnum þóknun fyrir að sýna verk sín og laun fyrir unnin störf. Þeirri vinnu er ekki lokið og er mikilvægt að myndlistarmenn, forsvarsmenn safna og menningarstofnana sem og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga taki höndum saman og láti það verða að veruleika.

Í fjórða lagi þarf að vinna að því að auka enn frekar framlag ríkisins til Myndlistarsjóðs. Þegar Myndlistarsjóður var stofnaður árið 2013, með sameiningu nokkurra sjóða sem vörðuðu myndlist var upphæð sjóðsins hin sama og samanlögð fjárhæð sjóðanna hafði verið, eða 45 milljónir króna.  Til þess að stuðla að áframhaldandi framgangi og vexti myndlistar og stuðningi    við verkefni á sviði greinarinnar þarf að auka fjárframlög til sjóðsins til muna.

Í fimmta lagi er nauðsynlegt að greina stöðu myndlistar með nákvæmri kortlagningu af heildarmynd íslenskrar myndlistar. Með slíkri kortlagningu er hægt að bæta yfirsýn, þekkingu og skilning á ólíkum starfsviðum þeirra sem starfa við myndlist, og ekki síður samhengi milli aðildafélaga SÍM, félagsmanna og samstarf sambandsins við KÍM (Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar).  Með slíkri greiningu er hægt að bæta samstöðu innan greinarinnar og farveg ólíkra hópa innan starfsumhverfis myndlistarinnar til aukins samtals.  Slíkt samtal styður við og eykur fjölbreytni  í samvinnu/starfi og býr til aukin tækifæri fyrir myndlistarmenn til þess að vinna að myndlist sinni og skapa starfsumhverfi í greininni til farsællar framtíðar.

Samhliða starfi mínu sem myndlistarmaður hef ég undanfarin misseri komið að reksri Hverfisgallerís og starfað þar sem aðstoðarframkvæmdarstjóri. Hjá Hverfisgalleríi hef ég séð um ýmis verkefni tengd sýningarstjórnun, sölu á listaverkum og þátttöku gallerísins í listamessum erlendis. Einnig hef ég starfað sem kennari í Tækniskólanum um árabil, kennt þar lita- og formfræði, teikningu og kvikmyndalæsi ásamt því að þróa nýjan áfanga í menningar­læsi.  Auk þess hef ég starfað sem verkefnis­stjóri myndlistardeildar Listaháskóla Íslands þar sem ég sá um kynningarmál deildarinnar, umsjón með námskeiðslýsingum og kennslu, hádegisfyrirlestrum og TALK series frá 2014 – 2016. Þá starfaði ég einnig sem verkefnisstjóri hjá SÍM um árabil þar sem ég hafði umsjón með starfshópi sem skipaður var af SÍM og helstu söfnum landsins.  Hjá SÍM sá ég um ritun skýrslu starfshópsins og gerð samnings um þóknun til myndlistarmanna sem sýna verk sín í opinberum söfnum á Íslandi.

Ég lauk störfum sem verkefnisstjóri hjá Myndlistarráði 2015 þar sem ég hafði umsjón með verkefni ráðsins um stofnun nýrrar kynningarmiðstöðvar myndlistar, skrifum á skýrslu ráðsins um Tækifæri og áskoranir við stofnun sérstakrar miðstöðvar íslenskrar myndlistar (MÍM).  Þá sá ég um verkefna­stjórnun á Myndlistarþingi ráðsins sem haldið var í Listasafni Reykjavíkur í október 2014 og kynnti þar skýrslu Myndlistaráðs.  Árið 2015-16 vann ég að viðamiklu verkefni fyrir Listasafn Reykjavíkur, fræðsluefni um öll útilistaverk í Reykjavík í eigu safnsins, en þar hef ég einnig tekið að mér að leiða smiðjur og sumarnámskeið. Ég hef setið í ráðum og stjórnum m.a. stjórn Hönnunarsjóðs um tveggja ára tímabil, stjórn Samtaka hönnunar – og listgreinakennara á framhaldsstigi (SLHF).  Ég hef verið varamaður í stjórn Barnamenningarsjóðs og varamaður formanns í stjórn KÍM.

Ég er með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands, diplóma frá Central Saint Martins, University of Art and Design í London og M.Art.Ed í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Árið 2013 lauk ég viðbótar diplómanámi á MA stigi í safnafræði við Háskóla Íslands með það að markmiði að auka þekkingu mína á faglegu starfi safna og tel þá reynslu hafa nýst mér vel í að kynnast betur starfsumhverfi myndlistarmanna innan safna.

Áhugasvið mitt hefur alla tíð verið myndlist og undanfarin ár hefur brunnið á mér að geta fundið leiðir til þess að styðja við og bæta stöðu myndlistar á Íslandi. Ég vona að ég fái tækifæri til þess leiða SÍM næstu tvö árin, vera öflugur málsvari og gæslumaður sameiginlegra hagsmuna og leggja mitt að mörkum til þess að vinna að þeim málefnum sem félagsmenn telja mikilvæg í samvinnu við stjórn sambandsins. Þau verkefni sem ég hef talið hér að ofan hafa gefið mér breiða sýn á stöðu myndlistar og því umhverfi sem myndlistamenn starfa í.  Sú sýn tel ég að geri mig að raunhæfri manneskju til að sinna þessu starfi af áhuga og dyggð.

Virðingarfyllst,

Ásdís Spanó

Myndlistarmaður

www.asdisspano.com

Framboðsfundur verður haldin 17.maí n.k. í SÍM húsinu, Hafnarstræti 16. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com