Borgarsogusafn12

Föstudagsfléttan: Leiðsögn um rúst landnámsskála

18. september kl. 12:10-13:00 á Landnámssýningunni í Reykjavík

Landnámssýningin – Borgarsögusafn Reykjavíkur

Föstudagsflétta Borgarsögusafns fer fram á Landnámssýningunni í Reykjavík föstudaginn 18. september kl. 12:10-13:00. Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur fer með gesti um rúst landnámsskála  frá 10. öld sem fannst árið 2001 og er varðveittur á sínum upprunalegum stað. Norðan við skálann fannst veggjarbútur sem er ennþá eldri, eða síðan fyrir 871 og er hann meðal elstu mannvistarleifa sem fundist hafa á Íslandi. Mun Mjöll segja frá uppgreftrinum og fornleifarannsókninni í kringum hann.

Mjöll, ásamt Orra Vésteinssyni, hóf fornleifarannsóknina í Aðalstræti 16 en uppgraftarstjóri var Howell Magnus Roberts. Rannsóknin var gerð síðla árs 2000 en gröftur hófst á meginhluta svæðisins snemma árs 2001. Tveimur árum síðar var grafinn upp annar hluti sem ekki var áður hægt að komast að og sá Mjöll að mestu um þann hluta.

Vitað var að minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar myndu leynast undir húsi númer 16 vegna þess að á árunum 1971-1975 höfðu farið fram fornleifarannsóknir sem sænski fornleifafræðingurinn Else Nordahl stjórnaði, en þá var grafið á nokkrum lóðum sem stóðu auðar og tók Mjöll þátt í þeim rannsóknum sem ungur námsmaður. Það má því segja að Mjöll eigi all langa fortíð í undirheimum miðborgarinnar!

Mjöll Snæsdóttir hefur starfað við fornleifarannsóknir og uppgröft víða um land ásamt því að hafa unnið á Árbæjarsafni, Þjóðminjasafni og hjá Fornleifastofnun Íslands. Einnig var hún ritstjóri Árbókar hins íslenska fornleifafélags í allmörg ár.

Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir sem lengi sem húsrúm, fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir leyfa. Föstudagsfléttan er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com