Borgarsogusafn12

Föstudagsflétta Ljósmyndasafnins: Bestu myndir ársins 2019 – sýningarspjall fyrri hluti

Hvað? Sýningarspjall um bestu myndir ársins – fyrri hluti

Hvenær? kl. 12:10 föstudaginn 22. maí

Hvar? Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, Reykjavík

Þrír af þeim ljósmyndurum sem hlutu verðlaun fyrir Myndir ársins 2019 kynna myndir sínar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur kl. 12:10, föstudaginn 22. maí. Það verða þau Kjartan Þorbjörnsson (Golli) sem hlaut verðlaun fyrir mynd ársins og myndaröð ársins; Aldís Pálsdóttir fyrir tímaritsmynd ársins; og Kristinn Magnússon fyrir íþróttaljósmynd ársins. Viku síðar munu þrír ljósmyndarar til viðbótar fjalla um verðlaunamyndir sínar á Ljósmyndasafninu.

Nú stendur yfir sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands Myndir ársins 2019 á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þar má sjá 96 myndir frá liðnu ári sem valdar voru af óháðri dómnefnd úr yfir 800 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara.

Viðburðurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Til að fylgja tveggja metra reglunni takmarkast fjöldi gesta við 20, fyrstir koma fyrstir fá. Aðgangur ókeypis.

Sýningin stendur til 30. maí og hægt er að nálgast bók með öllum myndum sýningarinnar í safnbúð Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Föstudagsfléttan er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

Umsagnir dómnefndar um vinningsmyndir þeirra þriggja:

Mynd ársins, Kjartan Þorbjörnsson (Golli), Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul.

„Áhrifarík og táknræn mynd fyrir loftslagsbreytingar af manna völdum. Myndin sýnir hversu smár maðurinn er í samanburði við náttúruna og síbreytilegan jökulinn frá áhugaverðu sjónarhorni,“ segir í umsögn dómnefndar.

Myndaröð ársins, Kjartan Þorbjörnsson (Golli), Vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul.

„Vel uppbyggð sería sem sameinar fallegar myndir og heildstæða frásögn sem á erindi við okkur öll. Myndröðin sýnir menn í tengslum við náttúruna frá ýmsum sjónarhornum.“

Tímaritsmynd ársins, Aldís Pálsdóttir, Er allt sem sýnist? Hvað er fullkomið?

„Vel útfærð tískumynd með fallegri lýsingu og góðri myndbyggingu. Módelið fangað á grafískan hátt.“

Íþróttamynd ársins, Kristinn Magnússon, Anton Sveinn McKee stingur sér til sunds.

„Mynd sem fangar kjarna íþróttaljósmyndunar. Góð myndbygging á hárréttu augnabliki,“

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com