Myndir Vefur (3)

Fjórar nýjar sýningar opnaðar í Listasafni Reykjanesbæjar á Ljósanótt

Í tilefni Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, opnar Listasafn Reykjanesbæjar sýninguna Framtíðarminni í listasal Duus Safnahúsa, fimmtudaginn 1. september kl. 18:00. Um er að ræða samsýningu fjögurra listamanna, þeirra Doddu Maggýjar, Elsu Dórotheu Gísladóttur, Ingarafns Steinarssonar og Kristins Más Pálmasonar.

Tengingar við ræktun, plöntur, kerfi og tíma eru áberandi í listaverkum þeirra en öll hafa þau á einhverju skeiði lífs síns búið á Suðurnesjum. Útkoman og miðlarnir sem þau vinna með eru þó afar ólíkir.   Á sýningunni verða m.a. málverk, teikningar, gróður-innsetning og vídeóverk. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Við sama tækifæri verða opnaðar þrjár aðrar sýningar á vegum listasafnsins í Duus Safnahúsum. Ljósmyndasýningin Sveitapiltsins draumur eftir Vigdísi Viggósdóttur, sýning Írisar Rósar Söring, Mín eigin jörð, sem inniheldur stóra keramik skúlptúra og minni mixed media gripi og loks sýningin Blómahaf með verkum eftir Elínrósu Blomquist Eyjólfsdóttur þar sem gefur að líta málverk, teikningar og skissur, postulín og skartgripi. Sýningarstjóri er Gunnhildur Þórðardóttir. Elínrós býður upp á listamannsspjall sunnudaginn 4. september kl. 15:00.

Sýningarsalir Listasafns Reykjanesbæjar eru í Duus Safnahúsum, Duusgötu 2-8. Aðgangur er ókeypis yfir Ljósanæturhelgina en sýningarnar standa opnar út október. Nánari upplýsingar um sýningarnar er að finna reykjanesbaer.is/listasafn.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com