Untitled 1

Farvegir vatns – Samsýning þriggja systra – Gallerí Grótta

Thorlacius systurnar þrjár Ingileif, Áslaug og Sigrún gengu allar í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en völdu ólíkar leiðir þegar kom að háskólanámi. Þær áttu eftir að sameinast aftur undir merkjum myndlistarinnar; útskrifaðar úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands auk þess að hafa sótt sér framhaldsmenntun í myndlist og tengdum greinum.

Nú sameinast systurnar þrjár í fyrsta sinn á samsýningu, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 12. nóvember kl. 17 og velta fyrir sér áhrifum vatns út frá fagurfræðilegu sjónarmiði, nýtingu þess og krafti.

Ingileif og Áslaug eiga fjölmargar sýningar að baki en Sigrún sýnir hér í fyrsta sinn opinberlega eftir útskrift. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands á síðasta ári þar sem hún vakti athygli á því hvernig sveppir geta unnið eitur úr jarðvegi.

Sýningin er opin mán.-fim. 10-19, fös. 10-17 og lau. 13-17. Hún stendur til 4. desember.
Aðgangur er ókeypis. Gallerí Grótta er staðsett á Eiðistorgi, 2. hæð.

Ingileif Thorlacius
Vatnið er rauður þráður í höfundarverki Ingileifar, bæði sem myndefni og miðill. Við upphaf ferils síns málaði hún stór olíumálverk af vatni í stríðum straumum. Með tímanum sneri hún sér æ meir að vatnslit. Um leið varð myndefnið naumara og litunum fækkaði. Síðustu verkin hennar eru einföld rannsókn á ferðalagi vatnsins um pappírinn. Myndirnar á sýningunni falla í þann flokk.

Áslaug Thorlacius
Áslaug notar teikninguna sem rannsóknartæki. Með henni lærir hún ekki eingöngu að þekkja yfirborðið heldur öðlast hún djúpa persónulega vitneskju um innri gerð viðfangsefnisins. Hún sýnir blýantsteikningar og röð blekmynda af vestfirskum fjallahvilftum, giljum og klettabeltum sem vatn og aðrir kraftar náttúrunnar hafa mótað.

Sigrún Thorlacius
Verk Sigrúnar er hugvekja um votlendi. Íslendingar hafa ræst fram mýrar af miklum ákafa og þurrkað upp meirihluta votlendissvæða á láglendi í nafni landnýtingar. Hnattræn áhrif þessara aðgerða eru mun meiri en flestir gera sér grein fyrir. Á sýningunni túlkar hún vísindalegar niðurstöður íslenskra sérfræðinga. Með því vill hún vekja til umhugsunar um hvar við stöndum og hvert við stefnum í meðferð og nýtingu vatns, lands og náttúrugæða.

Um systurnar/listamennina
Ingileif fæddist 5. ágúst 1961, Áslaug 11. september 1963 og Sigrún 10. febrúar 1968. Allar gengu í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en Ingileif lauk stúdentsprófi 1981, Áslaug 1983 og Sigrún 1988.

Ingileif
Ingileif las bókmenntafræði við HÍ í eitt ár að loknu stúdentsprófi en fór svo í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk málaradeild 1986. Hún stundaði framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1986-88, tók diplómapróf í listkennslufræðum frá LHÍ 2004 og hóf meistaranám í menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst haustið 2005. Þar lauk hún öllum kúrsum en átti meistaraverkefnið eftir.

Ingileif fékk hálfs árs listamannalaun árið 1989. Hún var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Valand listaháskólann í Gautaborg og Listaháskóla Íslands. Hún vann við fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur árin 1997-2003 og kenndi einn vetur við Ljósafossskóla eftir kennsluréttindanámið. Árið 2005-6 var hún framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands á Blönduósi. Ingileif lést 22. mars 2010.

Ingileif hélt fimm einkasýningar á níu árum, eina í Maastricht, aðra í Ásmundarsal og þrjár í Nýlistasafninu en hún var mjög virk í starfi félagsins og sat þar um tíma í stjórn. Hún tók þátt í átta samsýningum á Íslandi og í Svíþjóð og sýndi auk þess í tvígang ásamt Áslaugu systur sinni. Í janúar 2014 stóð fjölskylda hennar fyrir yfirlitssýningu á verkum hennar í Listasafni ASÍ undir yfirskriftinni Myndir Ingileifar. Af því tilefni gaf Eyja – útgáfufélag út bók með sama nafni.

Áslaug
Áslaug var við rússneskunám í Sovétríkjunum árið 1984-85. Hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og lauk þaðan námi við fjöltæknideild árið 1991. Hún lauk BA gráðu í rússnesku og bókmenntafræði 1993 og diplómaprófi í listkennslufræðum frá LHÍ 2004.

Áslaug var framkvæmdastjóri Samtaka um kvennalista árin 1995-2000. Samhliða því var hún formaður stjórnar Nýlistasafnsins í Reykjavík 1995-97 og myndlistargagnrýnandi DV 1997-2000.  Hún starfaði á skrifstofu Myndlistaskólans í Reykjavík árin 2001-3 og var formaður Sambands Íslenskra myndlistarmanna 2002-9 samhliða kennslu við Melaskóla 2004-11. Hún var prófdómari útskriftarverkefna í myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorin 2001 og 2004, kenndi námskeið við myndlistardeild Háskólans í Xiamen í Kína og hefur kennt rússneska listasögu við rússneskudeild Háskóla Íslands frá 2009. Áslaug sneri aftur til starfa við Myndlistaskólann í Reykjavík vorið 2012 og hefur verið skólastjóri skólans frá júní 2014.

Áslaug hefur tekið þátt í yfir 20 samsýningum og haldið annað eins af einkasýningum og sýningum í samstarfi við fjölskyldu sína og Ingileifu systur sína. Hún dvaldi í gestavinnustofu í Kína haustið 2006 og í Kjarvalsstofu í París í ársbyrjun 2013. Áslaug hefur fengið samanlagt eins og hálfs árs listamannalaun og hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir verk sín á Vatnslitatvíæringnum í Kaunas árið 2012. Hún gerði skúlptúra fyrir verkið Vits er þörf á Háskólatorgi sem Finnur Arnar vann fyrir Háskóla Íslands og haustið 2014 vann hún verkefni fyrir Listskreytingarsjóð í móttöku göngudeild geðdeildar Landspítalans á Kleppi.

Sigrún
Sigrún lauk BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands í júní 1993. Hún stundaði nám á listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði 2008 -2012 og lauk BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands í júní 2015.

Sigrún hefur starfað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá 1993. Fyrstu árin í fræðsludeild garðsins þar sem aðalhlutverk hennar var að fræða og útbúa efni fyrir nemendur í skipulögðu fræðslustarfi, sem og fyrir gesti garðsins. Frá 1997 hefur hún sinnt starfi aðstoðarforstöðumanns garðsins. Samhliða námi við LHí (2012 – 2015) var hún í hlutastarfi en er nú aftur komin í fullt starf.

Á námsárunum hefur Sigrún tekið þátt í nemendasýningum, fyrst á vorsýningum Iðnskólans í Hafnarfirði og síðar sýningum Listaháskóla Íslands, síðast á útskriftarsýningu skólans í Hafnarhúsinu vorið 2015. Þess utan tók hún þátt í samsýningu 3. árs vöruhönnunarnema í Gallerí Tukt á hönnunarmars 2015. Farvegir vatns er fyrsta sýning Sigrúnar að lokinni útskrift.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com