Fædd Í Sláturhúsinu – Net

Fædd í sláturhúsinu – Sýning níu listamanna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum

Fædd í sláturhúsinu

Þann 17. júní nk. klukkan 15:30 opnar myndlistarsýningin Fædd í sláturhúsinu – og er hún ein af þremur sumarsýningum Sláturhússins, menningarseturs á Egilsstöðum, sem opna á þessum degi.

Sýningin samanstendur af verkum níu listamanna frá Íslandi, Þýskalandi, Sýrlandi og Madagaskar, sem vinna með margskonar miðla í sköpun sinni – svosem málverk, myndbönd, hljóð, gjörninga og skúlptúra. Verkin, sem annars standa á eigin fótum, tengjast fyrir tilstilli hugtaksins grunnþarfir sem varpað var fram til íhugunar við upphaf sköpunarferlisins og listamönnunum níu boðið að takast á við – eða afþakka – hver með sínu ólíka nefi.

Listamennirnir eru Alina Amer, Berglind Ágústdóttir, David Zehla, Freyja Eilíf, Katrína Mogensen, Snorri Páll, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Trixi Szabo og Una Sigtryggsdóttir.

Á kjötkrókunum munu hanga skrokkar af ýmsum toga – göldróttir og kenjóttir, góðkynja og illkynja, sumir úr háloftunum, aðrir af jörðu niðri, enn aðrir úr iðrunum, sumir nýskriðnir á fætur, aðrir löngu lamaðir, einhverjir verkaðir til fulls fyrir löngu, aðrir mótaðir af staðnum og umhverfi hans, veðri og jarðvegi, orku og ólgu.

Gera má ráð fyrir gáskafullum snúði um ofbeldismennsku og eyðileggingarhvöt; fjöldaframleiddri skyndimynd úr fangaklefa bannfærðs manns úr fyrndinni; líkamlegu samspili og/eða átökum systranna mótstöðuleysis og stjórnar; stúdíu um hið flækjustigsháa samband einstaklings og samfélags; svipmynd af þrá hins fallna engils eftir ósjálfráðri fegurð og vængjum til að brúa gjár milli heima; og þeirri grunnþörf hins hlut- og óhlutbundna manns að segja bæði og heyra sögur – og þá helst góðar sögur. Einnig má vera að óvæntir og áður óþekktir gripir birtist og sameinist byggingunni, fylli upp í holur hennar og setjist að í skúmaskotum.

Sýningin stendur til 15. september 2017.
Sláturhúsið er opið þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 11:00 til 16:00.
Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Menningarsjóði Gunnarsstofnunar.

Nánari upplýsingar: Steinunn Gunnlaugsdóttir — surkula@gmail.com — s. 763 1233

www.slaturhusid.iswww.facebook.com/events/102003257059264

Um listamennina

Alina Amer fæddist í Odessa í Úkraínu, en fluttist ung til Sýrlands þar sem hún útskrifaðist af byggingarlistar- og borgarskipulagsdeild Háskólans í Damaskus árið 2012. Ári síðar flutti hún til Beirút, Líbanon, og þaðan til Berlínar þar sem hún býr og starfar sem myndlistarmaður í dag.

Berglind Ágústdóttir er myndlistar- og tónlistarkona. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur síðan sýnt víða á Íslandi og erlendis, staðið að listviðburðum og tónleikum, verið sýningarstjóri, gefið út plötur og kassettur, flutt tónlist sína víða um heiminn, og gert tilraunaútvarp.

David Zehla fæddist í Antananarivo, Madagaskar, en fluttist til Frakklands árið rétt fyrir aldamót. Árið 2013 flutti hann til Íslands og hefur starfað við uppvask, skipamálun og smíðar, auk þess að sýna verk sín, t.d. í Týsgalleríi og Ekkisens. Hann álítur sig venjulegan borgara og óþekktan málara.

Freyja Eilíf er sjálfstætt starfandi myndlistarkvendi sem útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2014. Síðan þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga, innlendis og erlendis, auk þess að reka sýningarýmið Ekkisens í Reykjavík. Freyja er einnig stofnandi tímaritsins Listvísi.

Katrína Mogensen útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands vorið 2014 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölda sýninga og annarra listverkefna, t.d. í Ekkisens, Algera Studio og á Reykjavík Dance Festival. Katrína er einnig söngkona, tón- og textasmiður hljómsveitarinnar Mammút.

Snorri Páll er ljóðskáld, slitasmiður, iðnaðartommari og lausamaður, stofnandi og sýningasóknari Sakminjasafnsins sem sett var á fót á aðventu páska 2016 – svo eitthvað sé nefnt. Verk sín hefur hann meðal annars flutt og framið í reykvísku svartholi, þýsku reykskýi og líbanskri tímaleysu.

Steinunn Gunnlaugsdóttir er listamaður og förukona. Verk hennar eru unnin í ýmsa miðla og hafa dúkkað upp út um hvippinn og hvappinn. Hún hefur einnig skipulagt viðburði, sýningar og óvæntar uppákomur – og kallaði listamennina saman í Sláturhúsið vegna trúar hennar á galdra og kraftaverk.

Trixi Szabo er augnabliksvirki.

Una Sigtryggsdóttir útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2015 og nemur nú heimspeki við Háskóla Íslands. Nýlegar einkasýningar hennar hafa farið fram í sýningarýmunum Ekkisens og Anarkíu, auk þess sem hún hefur tekið þátt í samsýningum, m.a. í Harbinger galleríi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com