Unnamed

Erasmus+ umsóknarfrestir 2019

Nú er rétti tíminn til að undirbúa umsóknir um verkefni og styrki úr Erasmus+ áætluninni, en umsóknarfrestir ársins hafa nú verið auglýstir.  Í ár er um 1,3 milljarður íslenskra króna í boði fyrir íslenskar stofnanir og samtök sem vilja grípa þau fjölmörgu tækifæri sem áætlunin hefur upp á að bjóða. Það er um að gera að nýta sér þann fjölbreytta stuðning sem Landskrifstofan býður upp á svo að umsóknin þín samræmist markmiðunum sem stefnt er að og sé líkleg til árangurs. Umsóknarfrestir ársins 2019 eru eftirfarandi:

Í menntahluta Erasmus+ eru tveir umsóknarfrestir: 

Nám og þjálfun: 5. febrúar
Samstarfsverkefni: 21. mars

Í æskulýðshluta Erasmus+ eru þrír umsóknarfrestir þar sem opið er í alla flokka: 

5. febrúar, 30. apríl og 1. október.

Aðstoð við umsækjendur

Við hvetjum þig til að kynna þér þá aðstoð sem Landskrifstofan býður upp á við gerð góðra umsókna og að nýta þér þá þjónustu sem hentar þínum þörfum best. Á heimasíðunni www.erasmusplus.is eru leiðbeiningar fyrir hvern verkefnaflokk og myndbönd til stuðnings.  Við veitum líka með mikilli ánægju ráðgjöf og aðstoð í síma, með tölvupósti og á fundum.

Heimsóknir – ráðgjöf á landsbyggðinni

Landskrifstofa Erasmus+ leggur ríka áherslu á aðstoð við umsækjendur á landsbyggðinni. Hikaðu ekki við að láta okkur vita ef þú vilt fá okkur í heimsókn í bæjarfélagið þitt til að kynna Erasmus+ og þau tækifæri sem felast í áætluninni eða til að veita umsækjendum ráðgjöf. Þú sendir okkur einfaldlega beiðni á erasmusplus@rannis.is og við höfum samband.

Opið hús hjá Landskrifstofu

Landskrifstofa Erasmus+ verður með OPIÐ HÚS á 1. hæð í Borgartúni 30 föstudaginn 1. febrúar kl. 10:00-16:00. Við hvetjum þá sem eru komnir af stað með umsókn og ætla að sækja um í Erasmus+ fyrir þann 5. febrúar til að mæta með tölvuna sína og fá aðstoð ef þörf krefur. Hægt verður að fá aðstoð við umsóknarkerfið og spyrja spurninga er lúta að umsóknarferlinu og gæðum verkefnahugmynda.

Námskeið og æfing í gerð umsóknar um Erasmus+ samstarfsverkefni 7. febrúar 2019

Námskeiðið er ætlað fólki sem er komið með grunnhugmynd að verkefni og stefnir að því að senda inn umsókn í menntahlutann fyrir umsóknarfrestinn 21. mars 2019 (kl 11) eða í æskulýðshlutann fyrir 30. apríl (kl 10). Sjá nánari upplýsingar og skráningarform. Ef þú ert í vafa um hvort námskeiðið hentar þér hafðu þá endilega samband við okkur. Stutt pælingarspjall um verkefnishugmynd hjálpar oft mikið!

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com