Ómar Stefánsson Ljósm. Steinunn Lilja

Ekkisens: Bersöglar sögur úr undirheimum Íslendinga

Krimmasögur eftir Ómar Stefánsson verða kynntar í Gallerí Ekkisens, Bergstaðastræti 25B, næsta laugardag kl. 17:00. Bókin inniheldur sannar íslenskar glæpasögur, hótanir, ásamt ýmsum athugasemdum frá höfundi.

Á sama tíma verður opnuð sýning á sérvöldum verkum eftir Ómar Stefánsson og á opnunarhófinu mun hann lesa upp úr kvæðabálk sínum „Parísarárin“ sem fjalla um ömurlega og sársaukafulla Parísardvöl á námsárum hans. Meðal verka sem til sýnis verða er samvinnuverk listamannsins við Völund Draumland Björnsson heitinn, sem átti vinnustofu í rými Ekkisens, stórskuldugur skordýraskúlptúr sem seldur verður á glæpsamlegu verði á meðan sýningu stendur og málverkið „Thank god Tachisme is back“

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á opnun. Léttar veitingar í boði. Sýningin verður opin eftir samkomulagi til 22. janúars.

Ómar Stefánsson er fæddur árið 1960 og útskrifaðist úr Mynd- og Handíðarskólanum árið 1981 og sem Meisterschuler í málaralist frá prófessor Fussmann í Hochschule der Kunste í Vestur-Berlín. Hann hefur unnið samvinnuverk með Magnúsi Pálssyni, Dieter Roth, André Thomkins, Dominik Steiger og verið í listakreðsum með Dorothy Iannone, Jan Voss og Einari Guðmundssyni Litla- Skáldi. Ómar hefur einnig sýnt verk sín með myndlistarmönnunum Joseph Boyce, Dieter Roth, Hermann Nitch, Cy Twombly og Robert Filiou. Verk eftir hann eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Nýlistasafnsins og Heine Onstadt safnsins í Osló, Noregi. Einnig eru verk hans í einkaeigu víðs vegar um Evrópu, til að mynda hjá einkasöfnurum í Hollandi og Illuminati í Sviss.

________________________________________________________________
ljósmynd af Ómari Stefánssyni
Ljósmynd: Steinunn Lilja Draumland

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com