Egill2IMG 9569 572×276

Egill Sæbjörnsson valinn fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringinn 2017

Egill Sæbjörnsson hefur verið valinn fulltrúi Íslands á 57. Feneyjartvíæringnum árið 2017. Sýning hans verður unnin í samstarfi við Stefanie Böttcher sýningarstjóra.

Egill Sæbjörnsson er myndlistamaður, gjörningalistamaður, tónlistamaður og tónskáld. Verk hans samanstanda oftar en ekki af samblöndu raunverulegra hluta sem sveipaðir eru tálsýn og töfrum í gegnum vídeóvörpun og hljóð. Nýmiðlar, gjörningar og tónlistarflutningur spilar stórt hlutverk í verkum hans. Egill beitir kímni sinni, klókindum og dýpt, öllu á sama tíma. Hann ruglar fólk í ríminu og kemur á óvart á meðan hann leiðir okkur á ánægjulegan hátt að tilvistarlegum spurningum. Verk Egils eru tilraunakennd og þarfnast hvorki leiðbeininga né kunnáttu til skilnings og upplifunar.

Fagráðið er stóð að valinu þessu sinni segir: ,,Uppátækjasemin og skopskynið sem einkennir verkefni Egils, auk færni hans í að draga saman aðskilda heima með notkun mismunandi miðla til þess að skapa heilsteypt heildarumhverfi þar sem raunveruleikinn skarast á við hið ímyndaða mun fanga athygli áhorfenda á Feneyjartvíæringnum árið 2017, með sínum marglaga heimi sem endurspeglar okkar samtíma og á erindi við heiminn allan.”
Stefanie Böttcher: ,,Ég er mjög heiðruð af vali dómnefndar. Það er heljarinnar áskorun að sýningarstýra íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum sem er ein helsta listasýning í heimi. Ég hlakka afskaplega mikið til verkefnisins og ég er sannfærð um að gestir sýningarinnar verði algjörlega hugfangnir af framlagi Egils Sæbjörnssonar. Um leið og þeir stíga fæti inn í verkið, verða þeir hluti af því.”

Egill Sæbjörnsson (f.1973) býr og starfar í Berlín og Reykjavík. Verk hans og gjörningar hafa verið sýnd í Hamburger Bahnhof – safni fyrir samtímalist í Berlín; Frankfurter Kunstverein; Kölnischer Kunstverein; The Baryshnikov Art Center í New York; Oi Futuro í Rio de Janeiro; PS1 MoMA; Kiasma í Helsinki; Nýlistasafni Ástralíu í Sydney
Meðal gallerísýninga hans má nefna: i8 gallerí Reykjavík; Hopstreet Gallery, Brussel; Isabella Bortolozzi Gallery, Berlín og Johann König Gallery, Berlín.
Egill var tilnefndur til Carnegie listverðlaunanna árið 2010 og verk hans má finna í þónokkrum einkasöfnum. Tvö nýleg verk eftir hann eru: Steinkugel, varanlegt listaverk í opinberu rými fyrir Robert Koch Institute í Berlín og Cascade, ljósainnsetning fyrir Kunstmuseum Ahlen. Árið 2011 vann hann ásamt Marcia Moraes og Robert Wilson að endurgerð á verki Wilson sem ber titilinn Einstein on the Beach. Egill hefur auk þess gefið út þrjár bækur með verkum sínum og gefið út fimm plötur með tónlist sinni. Egill vinnur með galleríunum i8 í Reykjavik og Hopstreet Gallery í Brussel.

Sjá nánar.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com