Skaftfell.

Deiter Roth & Cheryl Donegan opnun í Skaftfelli

Skaftfell. Myndlistarmiðstöð Austurlands kynnir sumarsýningar 2019, Sýningin er tileinkuð svissneska listamanninum Dieter Roth, sem dvaldi reglulega á Seyðisfirði, en með sýningunni er velt fyrir sér sambandi á milli verka hans og þessa afskekkta bæjar. Þar að auki verða sýnd bókverk eftir Dieter ásamt prentuðum málverkum og textílverkum eftir listakonuna Cheryl Donegan sem er búsett í New York, en verk hennar bjóða upp á nýtt sjónarhorn á listrænt prent og útgáfu.

Húsin á Seyðisfirði, vetur 1988 – sumar 1995 er innsetning þar sem sex skyggnivélar sýna yfir 800 skyggnur af hverju einasta húsi á Seyðisfirði, teknar veturinn 1988 og aftur sumarið 1995. Hver einasta bygging, óháð hlutverki þess, stærð eða mikilvægi er sýnd á sama hátt. Verkið verður sýnt í Angró, sem er gamalt hafnarhús byggt um 1880, en það var einmitt frumsýnt þar árið 1995 og í kjölfarið gaf Dieter íbúum bæjarins eitt eintak. Verkið dregur upp mynd af Seyðisfirði og sýnir bæinn frá mikilvægu sjónarhorni í menningarsögulegu samhengi á tímum fólksfækkunar og vanrækslu húsanna í beinu framhaldi. Þessi innsetning er unnin í samvinnu með Tækniminjasafni Austurlands sem hefur yfirumsjón með Angró.

Verk listamannanna Cheryl Donegan og Dieters Roth verða til sýnis í sýningarsal Skaftfells en með sýningunni er velt fyrir sér starfi Dieters Roth sem listamann og útgefanda bókverka í samhengi við prentuð textílverk og málverk listakonunnar Cheryl Donegan sem býr og starfar í New York.

Dieter leit alltaf á bókverk sem heilstætt listaverk. Í fyrstu voru bækurnar hans mjög hefðbundnar með áherslu á geómetríu en síðar meir urðu þær meira dagbókarlegs eðlis auk þess sem hann fór í auknu mæli að nota fundnar myndir og endurnýta myndir úr eigin verkum auk mynda úr ritum eins og myndasögum, fréttablöðum og auglýsingum. Með þessari sýningu verður litið yfir nýstárlega nálgun sem hann tileinkaði sér og notaði við útgáfu og prentun.

Listakonan Cheryl Donegan varð þekkt á tíunda áratug síðustu aldar fyrir myndbandsverk sín. Undanfarið hefur hún verið að þróa nýja leið í verkum sínum með því að nota stafræna framleiðslutækni við gerð málverka og prentaðan textíl og sniðið úr þeim fatnað. Með þessari nýju nálgun Cheryl er ljóst að meginundirstaða við vinnu hennar er að nýta sér hefðbundna prentaðferðir og -tækni. Þannig nær hún, með hrífandi hætti, að varpa ljósi á hvernig nálgun Dieters birtist ítrekað í verkum samtíma listamanna. Á sýningunni mun Cheryl kynna nýleg verk í formi fatnaðar, málverka, myndbandsverka, prentaðs textíls og tímarita.

Við erum afar þakklát fyrir stuðning Björns Roth og Dieter Roth Estate sem gerði verkefninu kleift að verða að veruleika.

Um Dieter Roth
Karl-Dietrich Roth fæddist í Hannover árið 1930 og lést í Basel 1998. Hann lærði auglýsingateiknun og grafíska hönnun. Árið 1957 fluttist hann til Reykjavíkur og 1988 eignaðist hann heimili og vinnustofu á Seyðisfirði. Hann tók þátt í fjöldamörgum sýningum þ.á.m: documenta 4 árið 1969 og aftur documenta 7 árið 1977; árið 1982 sýndi hann fyrir hönd Sviss á Feneyjartvíæringnum; Schaulager Basel, Sviss, hélt utan um yfirlitstímaritið Roth Time 2003 ásamt Museum Ludwig, Köln, í Þýskalandi sem ferðaðist til Museum of Modern Art í New York árið 2004; Hangar Bicocca, „Dieter Roth og Björn Roth – Islands“, Mílanó, Ítalíu, 2013; Hamburger Bahnhof, „And away with the minutes. Dieter Roth and Music“, Berlín, Þýskalandi, 2015; og Casa Croci, Museo d´Arte di Medrisio, „La paura del 13 è qualcosa. Gli annunci pubblicitari di Dieter Roth“, Mendrisio, Sviss, 2015.

Um Cheryl Donegan
Cheryl Donegan er listakona frá New York, fædd 1962. Hún útskrifaðist með BA gráðu frá málaradeild Rhode Island School of Design og MA gráðu frá Hunter College í New York. Nýverið hefur hún verið með fjölda yfirlitssýninga þ.á.m: Scenes and Commercials, í New Museum, NYC (2016); My Plastic Bag, Kunsthalle Zürich (2017); og Cheryl Donegan: GRLZ + VEILS, Aspen Art Museum (2018) sem mun ferðast til Contemporary Arts Museum Houston á þessu ári. Fyrri sýningar eru m.a: The New Museum, 1995; Whitney Biennial, The Museum of Modern Art, og the Tang Museum of Art; New York Film and Video Festival; 1993 Feneyjartvíæringurinn; og the Biennale d’Art Contemporain de Lyon, í Frakklandi 1995. The monograph, Cheryl Donegan: Grlz + Veils var gefið út árið 2018 af Aspen Art Press; Contemporary Arts Museum Houston; og Kunsthalle Zürich

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com