Hverfisgallerí

Davíð Örn Halldórsson opnar sýninguna “Ókei, Au pair” í Hverfisgallerí

Laugardaginn 15. ágúst næstkomandi opnar Davíð Örn Halldórsson sína þriðju einkasýningu í Hverfisgalleríi og ber hún titilinn ,,Ókei, Au pair”

Sýningartexti eftir Pétur Má Gunnarsson:

Orðinn hlutur

Við höfum áhuga á orðnum hlut. Því sem getur sýnt fram á að við erum til. Áhugi mannsins á manninum er skiljanlega óseðjandi. Ekkert fær mannskepnuna til að glenna upp augun eins og spurningar um tilvistina. Hugur mannsins er sem heltekinn af tveimur ósamrýmanlegum þrám; eftir staðfestingu og, í jöfnu hlutfalli, nýjum spurningum. Yfir meintri framþróun hangir efinn eins og skínandi blað fallöxinnar eða visinn mistilteinn. Eigum við að óttast eða kyssast? Við gerum hvort tveggja til öryggis og til að sætta flöktandi sjálfið. 

Lífið er eitt endurkast skynjunar af öðru, magnað upp af furðunni yfir fyrirbærinu skynjun. Sú furða er kjarni vitundarinnar.  Við erum streymandi kerfi í straumi, uppfull af tilraunum til að túlka okkur – og virðast – sem fast efni á stöðugum, skilgreindum fleti. Við viljum hreinar línur milli ólíkra þátta; afmörkuð svæði með augljósan tilgang. Við viljum það yfirbragð; hólfaskiptan, taminn og hlýðinn glundroða í takmörkuðu upplagi. Við viljum sjá þekkingu og staðfestu. Við viljum sjá vald. 

Orðinn hlut er aðeins hægt að beita valdi.  Við drepum hann með athyglinni.  Við látum eins og hann hafi haft skýrt form og ákveðna eiginleika. Andspænis orðnum hlut eygir maðurinn þá von að geta sigrast á sjálfum sér; krufið tilveruna eða neglt upp á vegg og gefið merkingu. Sú von er smyrlingur í sjálfri sér; á ekkert skylt við lífið nema sem lýsing á brjálsemi og takmörkum hins hugsandi manns. 

Myndirnar sem Davíð sýnir nú má segja að lýsi þessu. Þó eru þær annars eðlis: Þær eru að gerast. 

Davíð Örn Halldórsson, Flatland Heist, 2020, blönduð tæni á fundinn við, 92x92cm

Davíð Örn Halldórsson (f. 1976) býr og starfar í Stuttgart, Þýskalandi. Davíð hefur mestmegnis unnið við málverk síðan hann útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og spreyjað með mismunandi málningu á fundna hluti, viðarplötur, póstkort, húsgögn. Fyrri verk Davíðs Arnar hafa oft samanstaðið af máluðum innsetningum.

Verk Davíðs Arnar byggjast yfirleitt á tilviljunum úr hversdagslífinu. Þau eru persónuleg úrvinnsla úr umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar með beinum og óbeinum hætti í listasöguna. Bakgrunnur Davíðs Arnar í grafík er einnig sjáanlegur í verkum hans sem efnislegur grunnur sem hann byggir list sína á. Davíð Örn hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og víða erlendis. Hann árið 2014 hlaut hann hin virta Carnegie Art Award styrk í flokki ungra listamanna.

Sýningin stendur til 24. október 2020.

Davíð Örn Halldórsson, Best of Classic, 2020, blönduð tækni á viðarborðplötu, 85x118cm
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com