Ramskram

dauðadjúpar sprungur eftir Hallgerði Hallgrímsdóttur – Opnun í Ramskram 22.febrúar

dauðadjúpar sprungur 

eftir Hallgerði Hallgrímsdóttur
Opnun í Ramskram 22. febrúar 2020 kl. 17:00

Verkið kom til þegar frumburður okkar kom andvana í heiminn og allt breyttist. Margar myndanna man ég ekki eftir að hafa tekið. Sumar tók ég þegar ég vissi ekki hvað annað ég ætti af mér að gera. 

Mánuðina eftir áfallið söfnuðust áteknar filmurnar upp. Ég eigraði um hverfið, við hjónin fórum í bíltúra og myndavélin var bara þarna, eitthvað til að gera, fela sig á bak við, tæki sem fylgdi lógík og reglum. Einn daginn tók ég síðan eftir filmuhrauknum í ísskápnum. Eftir það bættust myndir við safnið með meðvitaðri hætti. 

Verkið dauðadjúpar sprungur á sér rætur í hjartasorg ljósmyndarans, myndavélin fangar það sem brýst um í undirmeðvitundinni. Myndirnar sýna þannig bæði það sem á þeim er og með hvaða augum á það er horft. Sumar marglaga og táknrænar, aðrar einfaldar og auðlesnar en allar eru þær hjúpaðar viðkvæmni og fjarlægð. 

Í sýningarrýminu er hula dregin fyrir sjónu áhorfandans. Bleik tjöldin skapa hlýlegt andrúmsloft og stýra um leið ferðalagi gestanna um rýmið, liturinn og efniskenndin vísa bæði til heimilisins og kvenleikans. 

Titill verksins vísar í lagið Sofðu unga ástin mín sem Halla syngur til hvítvoðungs síns í Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar áður en hún kastar barninu í fossinn á flótta frá yfirvöldunum.

Sýningin opnar í Ramskram, Njálsgötu 49, laugardaginn 22. febrúar kl. 17:00.

Viðburður á Facebook: https://www.facebook.com/events/182467893203458/

Heimasíða listamanns: http://hallgerdur.com/

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com