MÖRK úr Sal 3  Lr

Dagur myndlistar í Listasafni Árnesinga

 Dagur myndlistar í Listasafni Árnesinga

Og fjölbreytt dagskrá í Listasafni Árnesinga Safnahelgina 30. okt.-1. nóv.

Mörk er heiti nýrrar sýningar sem opnuð var um síðustu helgi í Listasafni Árnesinga á verkum eftir Eygló Harðardóttur, Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Karlottu Blöndal og Ólöfu Helgu Helgadóttur.  Verk þeirra eru margbreytileg en eiga það sameiginlegt að vera að unnin í pappír og fást við mörk miðilsins.

Á degi myndlistar, laugardaginn 31. október kl. 15 verða listamennirnir Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Ólöf Helga Helgadóttir, tveir af fjórum höfundum listaverkanna á sýningunni Mörk með listamannaspjall um verkin á sýningunni. Jóna Hlíf er einnig formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM, sem lagði upp með dag myndlistar (dagurmyndlistar.is). Í safninu verður einnig listi yfir opnar vinnustofur í Hveragerði þennan dag og upplýsingar um dagskrá Bókasafnsins sem heiðrar dag myndlistar m.a. með því að draga fram myndlistarbækur til skoðunar.

Þessa helgi, 30. okt. – 1. nóv. er líka Safnahelgi á Suðurlandi sem nú er haldin í áttunda sinn til þess að efla og styrkja safnastarf á Suðurlandi, gera það sýnilegt, setja í samhengi og draga fram hversu spennandi starfsemi safna getur verið og fjölbreytt. Af því tilefni verður opnun föstudaginn 30. okt. kl. 17 á sýningunni Listamannabærinn Hveragerði og tillögum að útisýningu, sem eru sýninar hannaðar af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni og unnar að frumkvæði Listvinafélagsins í Hveragerði. Á sunnudeginum, 1. nóv. kl. 15-16 leikur Hörður Friðþjófsson gítarleikari af fingrum fram vel þekkta íslenska og erlenda tónlist á meðan gestir geta notið sýninganna, lesið eða gluggað í gnótt listaverkabóka, skapað með pappír, litum og lími í listasmiðjurýminu eða gætt sér á úrvali gómsætra veitinga.

Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18 og aðgangur er ókeypis og allir velkomnir að eiga þar góðar stundir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com