76218ceb 3499 40fe 82ca Cd492fab2996

Dagskrá Listasafns Reykjavíkur á fullveldisdaginn

Í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands býður Listasafn Reykjavíkur upp á skemmtilegar leiðsagnir og leiki fyrir fjölskyldur laugardaginn 1. desember.

Farið verður í ratleik í Ásmundarsafni, siglingu um verk Kjarvals á Kjarvalsstöðum og boðið er upp á nýstárlega leiðsögn um fullveldissöguna þegar hjólað verður á milli listaverka og minnismerkja í samvinnu við félagið Hjólafærni.

Ókeypis aðgangur er á alla viðburðina.

Leiðsögn á hjóli um sögu fullveldisins
Kl. 10.15-12.00 – Hjólatúrinn hefst á Hlemmi

Hvaða sögur segja styttur bæjarins okkur?
Félagið Hjólafærni og Listasafn Reykjavíkur taka höndum saman og bjóða upp á hjólatúr með leiðsögn. Hjólað verður á milli listaverka og minnisvarða sem tengjast sögu fullveldisins með ýmsum hætti. Staldrað verður við og sagt frá því sem fyrir augu ber. Hver var fyrsta styttan í bænum? Hvaða karlar standa fyrir framan Stjórnarráðið? Hvað eiga Vatnsberinn og Járnsmiðurinn sameiginlegt?

Hjólafærni miðar að því að efla hjólreiðamenningu með fræðslu, skemmtun og hagsmunabaráttu fyrir hjólreiðafólk. Listasafn Reykjavíkur annast vel á annað hundrað útilistaverk Reykjavíkurborgar auk starfseminnar í Hafnarhúsi, Ásmundarsafni og á Kjarvalsstöðum.

Hjólatúrinn hefst við Hlemm og honum lýkur á Kjarvalsstöðum, þar sem ilmandi kaffihúsið bíður eftir ferðalöngum. Athugið að mæta í klæðnaði og á hjólum sem hæfa veðri og færð þann daginn!

Nánari upplýsingar veita Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi: hjolafaerni@hjolafaerni.is og Aldís Snorradóttir, verkefnisstjóri viðburða hjá Listsasafni Reykjavíkur: Aldis.Snorradottir@reykjavik.is

NÁNAR   FACEBOOK

Fullveldisdagurinn: Leitin að verki Ásmundar frá 1918
Kl. 12.00 í Ásmundarsafni

Leitin að verki Ásmundar frá 1918 – ratleikur úti og inni í tengslum við sýninguna Ásmundur Sveinsson: List fyrir fólkið.

Á sýningunni er sjónum beint að öllum ferli listamannsins allt frá tréskurðarnámi hjá Ríkarði Jónssyni og til síðustu ára listamannsins. Sýnd eru verk unnin í ýmis efni þar á meðal verk höggvin úr tré, steinsteypu og brons. Á sýningunni eru jafnframt frummyndir þekktra verka sem stækkuð hafa verkið og sett upp víða um land.

Skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

NÁNAR   FACEBOOK

Fullveldisdagurinn: Siglt um sýningu Kjarvals í fortíð og framtíð
Kl. 15.00 á Kjarvalsstöðum

Siglt um sýningu Kjarvals í fortíð og framtíð – fjölskylduleiðsögn og Þingvallamósaíksmiðja í tengslum við sýninguna Jóhannes S. Kjarval: …lífgjafi stórra vona.

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og arfleifð hans lifir í fjölbreyttu lífsverki sem nær yfir fjölda málverka af náttúru landsins, kynjaverum sem þar leynast og fólkinu í landinu. Þannig má skipta myndefni Kjarvals gróflega í þrjá hluta; landslagsmyndir, fantasíur og mannamyndir. Þó skarast þetta oft þannig að í sömu myndinni getur verið að finna allar myndgerðirnar.

NÁNAR   FACEBOOK

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com