Harbinger

Brian Scott Campbell — Like A Ship – opnar í Harbinger laugardaginn 10.ágúst kl.16

Laugardaginn næstkomandi opnar bandaríski listamaðurinn Brian Scott Campbell einkasýningu sína, Like A Ship, í Harbinger sýningarýminu. 

Þetta er fyrsta sýning Brians hér á landi, en hann hefur sýnt vítt og breitt um Bandaríkin, í Kaupmannahöfn og Beirút. Auk þess að vera starfandi listamaður er Brian aðstoðarprófessor við The College of Art and Design við Háskólann í norður-Texas. 

Í verkum sínum heldur Brian til á mörkum teikningar og málverks, vinnur með grafít í gráskala á striga og leyfir teikningunni að vera í forgrunni málverkanna. Hann sækir innblástur sinn jafnt til dægurmenningar uppvaxtarára sinna, þá gjarnan barnabókmennta og teiknimynda, og málarsögunnar. 

Í Harbinger sýnir hann 10 málverk sem unnin voru á ferðalagi Brians um Suður-Frakkland og Ísland nú í sumar. Verkin sem eru að mestu í gráskala og unnin í flasche á striga, sýna afbyggt landslag, trjálendi, fjöll, vötn og ávalar hæðir akra og engja.

Brian beitir fyrir sig kunnuglegum mótífum listmálarans, sem í meðförum hans öðlast þó aðra merkingu. Hér eru akurlendið og vötnin ekki sælureitir baðaðir sólskini. Í tempruðum litaskala sínum leggja þessir staðir til hugmyndir um hliðarheim, hið innra líf, einhverskonar sálfræðilegt rými, á meðan teikningin, sem er veigamikil í verkunum, flæðir lauflétt og næsta kæruleysislega áfram og veitir þeim léttleika sem vegur á móti pallettunni.

Þetta er í annað sinn sem Brian starfar með Harbinger sýningarýminu, en sumarið 2017 sýningarstýrði hann sumarsýningu Harbinger, Zing Zam Blunder, þar sem hann leiddi saman fjölda íslenskra og bandarískra listamanna sem vinna með teikningu í verkum sínum.

Sýning Brians opnar laugardaginn 10. ágúst kl 16, og eru allir hjartanlega velkomnir, en hún stendur til 31. ágúst.

Harbinger sýningarými er til húsa að Freyjugötu 1 og opið er föstudaga og laugardaga á milli 14 og 17.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com