Breid Rafraent

BREIÐ

Jónína Guðnadóttir myndlistarmaður opnar sýningu sína á innsetningu sem ber heitið BREIÐ í vitanum á Breiðinni, Akranesi, föstudaginn 1. júlí n.k. kl. 16:00.

Jónína er alin upp á Akranesi en býr og starfar í Hafnarfirð þar sem hún hefur vinnustofu sína. Hún var á sjöunda áratugnum við nám í myndlist við Handíða- og myndlistaskóla Íslands eins og hann hét þá og Myndlistarskólann í Reykjavík en hélt svo til náms við Konstfack-skólann í Stokkhólmi (enskt heiti nú: University College of Arts, Crafts and Design) þaðan sem hún útskrifaðist að loknu fjögurra ára námi frá keramíkdeild skólans árið 1967, en vann svo sjálfstætt við skólann og sinnti þar kennslu til ársins 1968 er hún fluttist heim.

Verk Jónínu hafa fjallað um leitina að samastað mannsins í náttúrunni, ferðalag barnsins frá horfnum tíma til tilvistarvanda nútímans, hvernig tengslin við upprunann geta gefið þann kraft sem þarf til að allt verði ekki eyðingaröflum að bráð. Hún hefur þróað með sé persónulegt myndmál þar sem sterk og einföld form vísa í senn til hversdagslegra hluta og abstrakt hugsunar, fléttar saman fagurfræðilegri og greinandi nálgun við úrlausn viðfangsefnanna.

Jónína hefur haldið fjölmargar einkasýningar allt frá 1968 hér heima og erlendis og tekið þátt í fjölda samsýninga allt frá útimyndlistarsýningunni á Sólavörðuholti 1968 til sýninga í Japan, Bandaríkjunum, Þýskalandi og á Norðurlöndunum. Verk hennar er að finna á ýmsum söfnum, skúlptúrinn Himnaríki á Jaðrsbökkum á Akranesi og umhverfisverkið Hringiðu við Kárahnjúka.

Innsetningin Breið samanstendur af tugum eininga sem settar eru upp í 35 metra sveig upp eftir innri veggjum vitans. Þema verksins er hringrás lífsins við sjóinn, minningar um leiki bernskunnar í fjörunni, lífið í sjónum, lífverurnar í flæðarmálinu og fugla himinsins.

Vinnuferlið við undirbúning sýningarinnar verður sýnt með skjávarpa. Boðið verður upp á léttar veitingar við opnun. Sýningunni lýkur 30. ágúst.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com