Sím.listamenn

Bréf frá Berlín

Eftirfarandi er bréf sem lítill hópur listamanna frá Berlín sendi á Borgarráð, Borgarstjóra og til Mennta- og menningarmálaráðherra og sem og til SÍM, Kynningarmiðstöðvar Íslenskar Myndlistar og Bandalags Íslenskra Listamanna. Því er ætlað að vera til hvatningar og upplýsinga og vonast hópurinn til að listamenn verði styrktir beint, líkt og hefur verið gert í Berlín.


BRÉF TIL BORGARRÁÐS

Kæru borgarfulltrúar og samborgarar í Borgarráði Reykjavíkur,

Nú eru allir að reyna að vanda sig að finna úrræði fyrir þá sem missa tekjur í þessari krísu sem yfir stendur og þið ekki undanskilin, og er ábyrgðin ekki öfundsverð. Tilefni þessara skrifa er að reyna að hjálpa til að skýra út hvernig yfirvöld í Þýskalandi hafa styrkt listamenn þar í borg með aðferðinni SOFORT HILFE. Margir vitna í það og miða við það. Við erum búsett í borginni, höfum verið það í mislangan tíma en höfum fylgst með og reynt af eigin raun.

Í Þýskalandi var gefinn lágmarksstyrkur til listamanna sem samsvarar ca 1,5 – 2,5 mánaðarlaunum flatt á alla línuna. Styrkurinn samsvarar um 800.000 til 2.400.000 krónum í eingreiðslu á hvern listamann eftir fjölda starfsmanna. Þeir sem eru með 1 starfsmann fá lægst og þeir sem höfðu 5 fengu mest. Þess má geta að húsaleiga er a.m.k. helmingi lægri í Berlín en í Reykjavík og matarkostnaður 30% af því sem hann er í Reykjavík.

Umsóknin var einföld. Þeir gátu sótt um sem eru skráðir einyrkja-verktakar með ársskil. Þeir þurftu að gefa upp nafn og heimilisfang, bankaupplýsingar, skattnúmerið sitt (svipar til kennitölu hér) og hversu
margir væru starfandi hjá hverjum og einum. Það dugði. Reyndar þurfti að samþykkja að forsendur tekjumissis yrðu rannsakað með slembiúrtaksaðferð síðar meir en það var allt og sumt. Umsóknin tók
10 mínútur á netinu. Sótt var um á föstudegi og var peningurinn kominn inn á bankareikning strax á þriðjudegi vikuna eftir.

Samkvæmt könnun bkk – Samtökum myndlistarmanna í borginni – þá hlutu 90% þeirra sem sóttu um styrkinn.

Þetta var ótrúlega sterkt spil hjá stjórnvöldum, ekki verið að tvínóna við hlutina eða að festa sig of mikið við reglugerðir, heldur lausn fundin. Við vitum öll að það er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Og nú er nauðsyn. Listamenn eru margir hverjir undir lágtekjumörkum því þeir setja líf sitt og sál í listina. Það skilja þýsk stjórnvöld og við teljum og viljum trúa því að íslensk stjórnvöld skilji það líka. Á tímum sem þessum er það einfaldlega ákvörðun sem þarf að taka, að vernda þá sem eru undir venjulegum tekjumörkum þó þeir fylli ekki endilega upp í allar kröfur um skil á tryggingagjaldi og slíku. Margir listamenn á Íslandi geta ekki sótt um atvinnuleysisbætur, því þeir hafa ekki rétt til þess, en þeir þurfa samt einhvern veginn að lifa.

Pólitík Þýskalands í að styðja við listamenn hefur vaxið gífurlega á síðustu tíu árum. Ísland hefur vaxið sömuleiðis og er það öllum að þakka bæði fólki í nefndum og ráðum, ráðuneytum og ekki síður listamönnum og félagasamtökum þeirra. Við viljum þakka fyrir það.

Við hvetjum borgaráð að grípa til einfaldra aðgerða strax með beinum styrk til listamanna. Listir og menning eru undirstaða svo margs og svo djúpur hluti samfélagins: “Reyndu að lifa af sóttkví án bóka, tónlistar og kvikmynda”. Við vonumst til þess að sem flest ykkar tali því máli við hvort annað og sannfærið hvort annað. Við treystum á ykkur og erum til viðræðu tilbúin hvenær sem er

Með virðingu og vinsemd,
Hópur listamanna búsettra í Berlín

Forsvarsmenn:
Katrín I. Jónsdóttir Hjördisardóttir (búsett í RVK)
Netfang: artstudiodottir@gmail.com
Sími: 770 3135
Egill Sæbjörnsson
Netfang: egill.studio@gmail.com
Sími: +49 163 6371842

Undir þetta skrifa:
Anna Rún Tryggvadóttir, myndlistarmaður
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, óperusöngkona
Álfrún Pálmadóttir, textílhönnuður
Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri
Borghildur Indriðadóttir, arkitekt
Bryndís Björnsdóttir, myndlistarmaður
Dagrún Aðalsteinsdóttir, myndlistarmaður
Guðný Guðmundsóttir, myndlistarmaður
Gunnhildur Einarsdóttir, Ensemble Adapter
Gunnhildur Hauksdóttir, myndlistarmaður
Herdís Anna Jónsdóttir, óperusöngkona
Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður
Indriði Ingólfsson, myndlistarmaður
Ingólfur Vilhjálmsson, Ensemble Adapter
Ívar Glói Gunnarsson Breiðfjörð, myndlistarmaður
Katrín Helga Andrésdóttir, tónlistar- og myndlistarmaður
Kristjana Helgadóttir, Ensemble Adapter
Magnús Hallur Jónsson, óperusöngvari
Margrét Guðjónsdóttir, danshöfundur
Ólafur Kjartan Sigurðarsson, óperusöngvari
Salka Valsdóttir, tónlistarkona
Þorleifur Örn Arnarson, leikstjóri

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com