Bók Kassi Ltd 002

Bókverk sem varð til í Listasafninu á Akureyri. Örn Ingi Gíslason, lífið er LEIKfimi

Halldóra Arnardóttir, listfræðingur, verður með hádegisfyrirlestur í Listaháskóla Íslands á vegum listkennsludeildarinnar um kennsluaðferðir Arnar Inga 28. nóv frá 12:15-13:00.

Halldóra verður síðan í bókabúð Máls & menningar á Laugarveginum 29. nóvember og kynnir gjörning hennar “frá stáli yfir í gull” (úr stálöskju í blaðgull).

Rannsóknirnar fyrir bókina Örn Ingi Gíslason, Lífið er LEIK-fimi fóru fram á samnefndri sýningu í Listasafninu á Akureyri sem stóð frá 3.nóvember 2018 – 27.janúar 2019.

Efsta hæð listasafnsins breyttist í vettvang þess „að búa til bókverk“, í stað hefðbundinnar sýningar, sem varð til þess að eitt dagblaðanna setti fram fyrirsögnina: „Engin verk sýnd við opnun sýningarinnar!“ Veggir safnsins voru hins vegar þaktir myndverkum í lok hennar og bókin kynnt með málþingi!

Yfirlitssýningin Örn Ingi Gíslason, Lífið er LEIK-fimi varð að einum skipulögðum gjörningi sem einkenndist af þátttöku gesta í þrjá mánuði. Arfleifð Arnar Inga skilur eftir sig fjölda myndverka og minninga meðal samferðamanna hans og koma 27 þeirra við sögu í bókinni. (Þar á meðal Signý Pálsdóttir, Ævar Kjartansson, Sigríður Pétursdóttir, Hreinn Valdimarsson, Pétur Þorsteinsson, Oliver Kentish, Kolbeinn Bjarnason…)

Örn Ingi (1945-2017) vann þvert á listirnar. Hann var djarfur á breytingar því eitt var að vinna í myndlist – vinna einn og óhræddur við að segja meiningu sína, tjá sig – og hitt, að vinna sem kennari – hlusta á aðra, örva og búa til tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Örn Ingi Gíslason, Lífið er LEIK-fimi verður vonandi innblástur fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Með því að efla sköpunarkraftinn verðum við sterkari einstaklingar, vinnum á móti bælingu og óttanum, eitt af því sem Örn Ingi trúði á og vann með börnum jafnt sem fullorðnum.

Arfleið hans lifir því enn.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com