Sossa Anton IMG 9537

Blossi: Leiðsögn Sossu og Antons Helga

Blossi: Ljóðskáld, listakona og erótík
Leiðsögn Sossu og Antons Helga Jónssonar

Sunnudaginn 8. október kl. 15 munu Sossa og Anton Helgi Jónsson taka á móti gestum á sýningu sinni Blossa í Bíósal Duus Safnahúsa í Reykjanesbæ.

Á sýningunni eru málverk eftir Sossu og innrömmuð ljóð eftir Anton Helga Jónsson sem snúast um ástar- og hlutverkaleiki kynjanna.  Bæði eiga þau það sameiginlegt að hafa velt fyrir sér margbreytileika mannlífsins, hún í málverkum og hann í ljóðum. Með bros á vör og lífsgleðina að leiðarljósi hafa þau dregið upp myndir af alls konar fólki í verkum sínum. Blossi er samsýning þeirra á málverkum og ljóðum sem snúast um ástar- og hlutverkaleiki kynjanna.

Sossa hefur áður málað myndir út frá ljóðum úr bókum Antons en málverkin á þessari sýningu urðu til eftir að listamennirnir ákváðu að vinna saman að sýningu með erótískum undirtóni.  Efniviðinn í málverkin hefur Sossa sótt í ljóð eftir Anton sem fæst hafa komið fyrir augu annarra og sum reyndar orðið til upp úr samstarfi þeirra. Málverkin eru ekki hugsuð sem myndskreyting við ljóðin heldur verk sem sprottin eru af sama eða svipuðum blossa. Þannig vilja listamennirnir láta reyna á það hvernig málverk og ljóð geta hvort á sinn hátt miðlað heitum tilfinningum; ástarblossa milli karls og konu, karls og karls, konu og konu. Hverju miðlar málverkið? Hverju miðlar ljóðið? Hvað er mynd í ljóði? Hvað er ljóð í mynd?

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com