BH Still 2017

Blindrahundur í Bíó Paradís – tilboð fyrir félagsmenn SÍM

Blindrahundur er ný heimildamynd um myndlistarmanninn Birgir Andrésson (1955-2007). Myndin er til sýnis i Bíó Paradís um þessar mundir og félagsmenn SÍM fá 25% afslátt af miðaverði. Næstu sýningar eru 10. nóv kl. 18:00, 11. nóv kl. 20:00, 12. nóv kl. 18:00 og 13. nóv kl. 18:00, sjá nánar á vefsíðu Bíó Paradís, www.bioparadis.is.

Í Blindrahundi er ævi og ferill Birgis rakin í gegnum frásagnir samferðarfólks frá bernsku og þar til hann lést sviplega árið 2007. Handrit, leikstjórn og klipping er í höndum Kristjáns Loðmfjörð og framleiðandi er Tinna Guðmundsdóttir.

Blindrahundur var sýnd í byrjun júní á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg, Patreksfirði, þar sem hún hlaut góðar viðtökur og vann bæði áhorfenda- og dómaraverðalaun. Heimildamyndin var 9 ár í framleiðslu, með hléum, og kemur út þegar 10 ár eru liðin frá fráfalli Birgis.

Myndin byggir á frásögnum fjölskyldu, vina og samstarfsmanna, hæglátu myndmáli í anda myndlistar Birgis og rödd listamannsins sjálfs. Fram koma: Andrés Gestsson, Gísli Helgason, Bjarni H. Þórarinsson, Hannes Lárusson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Pétur Arason, Sigurður Gylfi Magnússon, Halldór Björn Runólfsson, Guðmundur Oddur Magnússon, Jón Proppé, Kristinn E. Hrafnsson, Þröstur Helgason og Steinunn Svavarsdóttir. Kristín Ómarsdóttir skáld fylgir áhorfendum að auki og fyllir ýmist í eyður eða eykur á óvissuna um listaverk Birgis sem eru full af leikgleði, opin og margræð í senn.

Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp sem einkabarn við afar sérstakar aðstæður. Í fjölmennu samfélagi í húsi Blindrafélagsins var Birgir sá eini með fulla sjón og lét gjarnan hafa eftir sér að hann hafi verið augu heimilisins.

Þessi óvanalegi bakgrunnur varð kveikjan að djúpstæðum áhuga hans á sambandinu á milli tungumáls og myndmáls, hins sýnilega og ósýnilega. Uppistaðan í verkum Birgis er tungumálið í bland við hverfandi menningararf samfélags sem var, en vék þegar Ísland opnaðist fyrir umheiminum um miðbik síðustu aldar.

Í Blindrahundi er dregin upp mynd af Birgi, allt frá barnæsku fram á síðasta dag. Hann var jaðarmaður, þekktur fyrir litríkan persónuleika og fremstur meðal jafningja af sinni kynslóð á sviði íslenskrar samtímamyndlistar. Með listinni leitaðist Birgir við að varpa ljósi á hið „sérkennilega“ í íslenskri menningu og sögu. Í myndinni er aftur á móti leitast við að varpa ljósi á sérkennilegt lífshlaup Birgis og hvernig maðurinn og verkin endurspeglast hvort í öðru.

Vefsíða myndarinnar

Stikla

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com